TVÖ tilboð bárust Landspítalanum í rekstur öldrunardeildar á Landakoti en tilboðsfrestur rann út fyrr í þessum mánuði.

TVÖ tilboð bárust Landspítalanum í rekstur öldrunardeildar á Landakoti en tilboðsfrestur rann út fyrr í þessum mánuði. Í samtali við Morgunblaðið segir Björn Zoëga, lækningaforstjóri Landspítalans, að verið sé að fara gaumgæfilega yfir tilboðin og skoða hvað nákvæmlega sé innifalið í hvoru tilboði fyrir sig, enda sé um flókið samspil að ræða þegar heil deild inni á spítala sé boðin út. Segir hann ósennilegt að þeirri vinnu ljúki fyrir páska. Spurður hvort tilboðin hafi verið undir eða yfir þeim væntingum sem stjórnendur Landspítalans höfðu gert sér segir Björn allt benda til þess að tilboðin séu hærri en búist hefði verið við. „Við fyrstu sýn virtust tilboðin líklega vera í hærri kantinum og þess vegna erum við að reikna þetta nákvæmlega,“ segir Björn.

Spurður hvort sú staða geti komið upp að ekki þyki svara kostnaði að taka öðru hvoru tilboðanna bendir Björn á að þessi útboðsleið hafi verið farin til þess að reyna að manna eina deild sem ekki reyndist unnt að manna með öðrum aðferðum.