Ódýrt JP Morgan Chase kaupir Bear Stearns fyrir samtals 236 milljónir dollara og fær með í kaupunum höfuðstöðvar bankans í New York
Ódýrt JP Morgan Chase kaupir Bear Stearns fyrir samtals 236 milljónir dollara og fær með í kaupunum höfuðstöðvar bankans í New York — Reuters
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is ÓVISSA á fjármálamörkuðum hefur aukist í kjölfar kaupa JP Morgan Chase-bankans á hinum 85 ára gamla fjárfestingarbanka, Bear Stearns, í Bandaríkjunum um helgina.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

ÓVISSA á fjármálamörkuðum hefur aukist í kjölfar kaupa JP Morgan Chase-bankans á hinum 85 ára gamla fjárfestingarbanka, Bear Stearns, í Bandaríkjunum um helgina. Verðið er svo lágt, 2 dollarar á hlut en var 30 dollarar síðastliðinn föstudag, að í erlendum fjölmiðlum er talað um brunaútsölu og að kaupin geti aukið líkurnar á mikilli lækkun og jafnvel hruni á gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum. Bandaríski seðlabankinn er þó sagður gera það sem hann getur til að koma í veg fyrir slíkt og Bush forseti lýsti jafnframt í gær yfir stuðningi við aðgerðir seðlabankans.

Breski seðlabankinn greip einnig til aðgerða í gær og tilkynnti um 5 milljarða punda innspýtingu inn á markaðinn til að freista þess að vega upp á móti lausafjárskorti. Þrátt fyrir söluna á Bear Stearns og aðgerðir bandaríska og breska seðlabankans lækkuðu hlutabréfavísitölur víðast hvar töluvert í gær, mest einmitt vegna lækkunar á gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum.

Bear Stearns er annað stóra fjármálafyrirtækið sem farið hefur á hliðina vegna þeirra erfiðleika sem verið hafa á fjármálamörkuðum að undanförnu. Hitt fyrirtækið er breski bankinn Northern Rock, sem var þjóðnýttur í síðasta mánuði. Í erlendum fjölmiðlum er sagt að engan veginn sé hægt að fullyrða að fleiri bankar muni ekki fara sömu leið og þessir tveir.

Koma í veg fyrir hrun

Orðrómur um slæma lausafjárstöðu Bear Stearns hefur verið hávær í nokkurn tíma en ástæðan fyrir erfiðleikum bankans er fyrst og fremst sú hvað hann var stór á markaði með hin svonefndu ótryggu veðlán eða undirmálslán. Vegna lakrar lausafjárstöðu var bankinn illa undir það búinn að mæta erfiðleikum á húsnæðislánamarkaðinum í Bandaríkjunum.

En hvers vegna vill JP Morgan hlaupa undir bagga og reyna að bjarga því sem bjargað verður varðandi Bear Stearns? Svarið er væntanlega það að kaupin gefa bankanum möguleika til frekari vaxtar án mikillar áhættu, því bandaríski seðlabankinn kemur að fjármögnun kaupanna. Seðlabankinn lagði til 30 milljarða dollara vegna fjármögnunar þeirra auk þess að ganga í ábyrgðir til að verja JP Morgan tapi komi til þess að eignir Bear Stearns lækki í verði.

Umfangsmikil aðstoð

Þetta er í fyrsta skipti í um þrjá áratugi sem bandaríski seðlabankinn grípur til þetta stórra aðgerða með jafn skömmum fyrirvara og raun ber vitni en aðstoðin vegna fjárhagsvanda Bear Stearns er ein umfangsmesta fjárhagslega aðstoð seðlabankans. Enda segir í erlendum fjölmiðlum að ljóst sé, að bandaríski seðlabankinn ætli að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir hrun á fjármálamörkuðum. Búist er við allt að 100 punkta lækkun stýrivaxta í dag.

Í hnotskurn
» Lækkun á hlutabréfum í gær er víða rakin til kaupa JP Morgan á Bear Stearns.
» Bandaríski seðlabankinn ábyrgist kaupin, sem er ein mesta fjárhagsaðstoð bankans í áratugi.
» Tilkynnt var um lokun skuldabréfasjóðsins Carlyle Capital í gær. Ekkert er eftir í sjóðnum fyrir hluthafa.