Nammiföndur Lilja Björk Pálmadóttir og Arnþór Víðir Vilmundarson með páskaeggið góða, en lengi vel hélt Arnþór að eggið væri keypt.
Nammiföndur Lilja Björk Pálmadóttir og Arnþór Víðir Vilmundarson með páskaeggið góða, en lengi vel hélt Arnþór að eggið væri keypt. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mamma Arnþórs Víðis Vilmundarsonar hefur gengið lengra en flestir í því að sjá til þess að hann fái „alvöru“ páskaegg, þrátt fyrir hnetuofnæmið. Hún trúði Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur fyrir galdrinum á bak við eggið.

Það hefur skipt minn dreng miklu að vera „eins og hinir“ krakkarnir þrátt fyrir ofnæmið,“ segir Lilja Björk Pálsdóttir, mamma Arnþórs Víðis Vilmundarsonar sem er 10 ára og glímir við jarðhnetuofnæmi. Eins og önnur börn í þessari stöðu getur Arnþór ekki borðað páskaegg sem fást í verslunum því súkkulaðið í þeim getur innihaldið jarðhnetur „í snefilmagni“ eins og segir á innihaldsmiðum.

Þetta veldur miklum vonbrigðum hjá mörgum ofnæmisbörnum um páska en til að koma í veg fyrir slíkt hjá Arnþóri hefur mamma hans gripið til sérstakra ráða. „Stór hluti af stemningunni við páskaeggin er að hægt er að borða eggið sjálft og eftir að Arnþór greindist með ofnæmið velti ég því fyrir mér hvernig við gætum komið því í kring að hann fengi „alvöru“ páskaegg. Þá fékk ég þá hugmynd að búa til páskaegg úr heimagerðri karamellu,“ segir hún.

Það var þó ekki auðhlaupið að því að hrinda hugmyndinni í framkvæmd því þótt hægt sé að kaupa sérstök páskaeggjamót í verslunum henta þau ekki til karamellupáskaeggjagerðar. „Þau eru úr plasti og myndu bráðna ef karmellunni væri hellt í þau því hún er logandi heit,“ útskýrir Lilja. „Ég varð mér því úti um páskaegg úr pappa sem ég fóðra með álpappír. Svo smyr ég karamellunni inn í mótin og læt hana harðna þar.“

Áður en Lilja límir helmingana tvo saman, fyllir hún eggin með sælgæti „sem ekki er venjulega í boði á nammidögum. Það getur t.d. verið hreinn lakkrís, sterkur brjóstsykur eða gúmmí.“ Að sjálfsögðu má ekki vanta málsháttinn í alvöru páskaegg. „Ég finn gjarnan málshátt sem er viðeigandi þá og þá stundina,“ segir Lilja kímin og það er á henni að skilja að það geti verið ágætt að nota tækifærið til að beita málsháttum í uppeldisskyni. „Ég tölvuskrifa málsháttinn, prenta hann á gulan pappír og klippi svo út áður en hann er brotinn saman og stungið inn í páskaeggið.“

Lilja lætur þó ekki þar við sitja heldur skreytir eggið eftir kúnstarinnar reglum. „Ég fæ unga og gerviblóm í blómaverslunum og lími á eggið með aðeins mýkri karamellu. Fótinn föndra ég svo úr því sem mér dettur í hug að nota þá stundina, en útfærslurnar geta verið svolítið mismunandi milli ára.“

Stakk egginu í innkaupapokann

Rúsínan í pylsuendanum er svo innpökkunin en Lilja leggur sig í líma við að hún sé sem „búðarlegust“. „Fyrst er að pakka egginu í sellófan, en þá þarf að finna blómabúð sem selur nægilega þykkt sellófan sem ekki rifnar. Það er svolítið snúið að búa til „pokann“ sem eggið er í. Stundum hef ég heftað hann saman en það vill rifna svo það hefur eiginlega gefist betur að líma hann saman. Spjaldið eða toppurinn sem lokar pokanum er svo býsna stórt atriði. Til að hann sé „alvöru“ kaupi ég auka páskaegg, tek af því toppinn og hefti á heimagerða eggið.“

Útkoman verður býsna raunveruleg – raunar svo raunveruleg að Arnþór hefur alla tíð staðið í þeirri trú að eggið hans sé „keypt“ eins og egg systur hans. „Það var ekki fyrr en í síðustu viku sem hann komst að raun um hvernig í pottinn er búið,“ segir Lilja. „Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að hann upplifði sig ekki einan á báti í þessum ofnæmismálum. Ég benti honum á grein í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá páskaeggjavandræðum stráks sem er með jarðhnetuofnæmi.“

Í greininni kom fram að ekki er hægt að kaupa páskaegg fyrir börn með hnetuofnæmi svo kauða fór að gruna ýmislegt. Mamma hans neyddist þá til að viðurkenna að hún hefði alltaf búið til eggið hans en ekki keypt það. Arnþór var þó ekki alveg tilbúinn að meðtaka þau tíðindi. „Hann m.a.s. þráttaði við mig og rifjaði það upp að hann hefði einu sinni verið með mér í búðinni þegar ég keypti eggið. Það var í eitt skiptið sem ég hafði gert eggið heima hjá mömmu og var með það í bílnum. Ég hafði áhyggjur af því að hann myndi sjá það svo ég laumaði því með mér þegar við komum við í búð á leiðinni heim, og náði að stinga því í einn innkaupapokann. Arnþór ályktaði því eðlilega að það hefði verið keypt þegar hann sá það þar með hinum páskaeggjum fjölskyldunnar.“

Nammigluggar í desember

Lilja leggur sig ekki síður í líma þegar kemur að súkkulaðidagatali stráksa fyrir jólin. „Ég kaupi dagatal fyrir hann, opna það að aftan og tæmi súkkulaðihólfin. Svo vaska ég plastið sem heldur súkkulaðinu rækilega með sápu áður en ég fylli litlu hólfin með sælgæti sem hann má fá, kem því aftur fyrir í dagatalinu og lími aftur. Þannig getur hann opnað nammiglugga á hverjum degi í desember, rétt eins og systir hans.“

Hún tekur undir með Erlu Björgvinsdóttur, mömmu Gunnars Dan Þórðarsonar, sem sagt var frá í síðustu viku, að áhyggjur stráksins af sjúkdómnum aukast með árunum. „Núna er hann orðinn þannig að hann heldur jafnvel niðri í sér andanum og hleypur út ef hann sér hnetustöng í hillu í búð þar sem við erum að versla. Afmælin hafa líka verið erfið því þegar hann birtist mætir honum krakkaskari sem tilkynnir að það sé súkkulaðikaka sem hann má ekki borða. Það hefur þó skánað undanfarið því nú eru afmælin orðin að miklu leyti pitsuveislur og þær eru í lagi fyrir hann.“

Lilja segir vissulega svolítið umstang fylgja páskaeggjagerðinni en hún telji það ekki eftir sér. „Ánægja viðtakandans er alveg þess virði að leggja eina kvöldstund undir til að búa til páskaegg sem er ekki aðeins ætt heldur lítur ekki ósvipað út og öll eggin í búðunum.“

Karamella í páskaegg

2 bollar sykur

1 bolli mjólk

½ bolli smjörlíki

nokkrir vanilludropar

2 msk. síróp

Smjörlíki og sykur er hrært saman. Sett í pott ásamt mjólkinni og suðan látin koma upp. Hræran freyðir upp að brún pottsins, en þegar hún sjatnar er vanilludropum og sírópi bætt saman við. Það er mikilvægt að hræra á þessu stigi viðstöðulaust í pottinum, því hræran byrjar að dökkna (í raun brenna) við botn pottsins. Hrært þar til karamellan er orðin fallega brún. Þá er henni hellt varlega úr pottinum og skeið notuð til að smyrja henni jafnt innan í formið sem síðan er sett inn í ísskáp eða frysti.

Karamellan rennur dálítið til og því þarf að hreyfa formið til í ísskápnum/frystinum svo skeljarnar verði ekki of þunnar við kantana en þá er erfitt að festa þær saman. Of mikill sykur gerir karamelluna duftkennda og hún verður ekki nógu stökk. Of mikið síróp gerir hana hinsvegar of mjúka svo maður þarf svolítið að þreifa sig áfram. Betra er að gera fleiri litlar blöndur en færri stórar.

ben@mbl.is

Höf.: Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur