Bragi Guðbrandsson
Bragi Guðbrandsson
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is „VIÐ höfum einblínt um of á barnið og höfum séð vandamálið liggja í barninu. Þess vegna hafa úrræði samfélagsins miðað að því að setja upp stofnanir til að vinna með börnum. Til þess höfum við t.d.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

„VIÐ höfum einblínt um of á barnið og höfum séð vandamálið liggja í barninu. Þess vegna hafa úrræði samfélagsins miðað að því að setja upp stofnanir til að vinna með börnum. Til þess höfum við t.d. BUGL, Barnaverndarstofu og ýmis meðferðarheimili,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu. „Hér kom fram að þetta er ekki í öllum tilvikum vænlegasta leiðin til að ná árangri, heldur þurfum við þvert á móti að beina sjónum okkar að foreldrunum,“ segir hann ennfremur, án þess þó að vilja draga úr mikilvægi fyrrnefndra stofnana.

Bragi stýrði ráðstefnu á vegum félagsmálaráðuneytisins á Grand hótel í gær, þar sem rætt var um foreldrahæfni. Ráðstefnan var liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og ungmenna, en um 200 manns sóttu hana. Áætlunin tekur meðal annars mið af tilmælum Evrópuráðsins um stefnu til eflingar foreldrahæfni, en tilgangurinn með þeim tilmælum er að fyrirbyggja og vinna gegn líkamlegum refsingum á börnum og stuðla að þroskavænlegum uppeldisaðferðum í anda meginreglna Barnasamnings Sameinuðu þjóðanna. Að sama skapi hefur Evrópuráðið samið tilmæli til bæði fagfólks og foreldra um þetta efni.

Bragi segir tilmæli ráðsins til foreldra í raun aðgengilegan texta þar sem innihaldi Barnasamningsins hafi verið komið yfir á aðgengilegt og skiljanlegt form þar sem grunnreglur í uppeldi barna eru útlistaðar. Fjögur grunnatriði sem þar koma fram eru nærandi stuðningur , þ.e. að veita barninu ást og öryggi, kjölfesta og leiðsögn , sem innræta barninu ábyrgðartilfinningu og sjálfsstjórn, viðurkenning , sem felst í að hlusta á barnið og meta það sem einstakling og efling sjálfsvitundar .

Erlendir fyrirlesarar lýstu aðferðum

Á ráðstefnunni voru flutt erindi um nánari útfærslur uppeldisaðferða fyrir misgömul börn, allt frá kornabörnum upp í táninga, og fyrir börn með margvíslegar sérþarfir, svo sem fatlanir, þroskaraskanir eða félagsleg vandamál á borð við vímuefnanotkun. Alan Ralph, ástralskur fræðimaður, flutti þar erindi um uppeldisaðferðir og félagsfræðingurinn Björn Arnesen frá Þrándheimi í Noregi kynnti árangur átaks í foreldrahæfni þar í landi. Einnig var MST, ný aðferð við meðferðarþjónustu utan stofnana, á vegum Barnaverndarstofu, kynnt.

„Ef vel til tekst er árangurinn sem næst með þessum nýju aðferðum mun varanlegri heldur en stofnanainngrip, sem standa yfirleitt í stuttan tíma. Ef það tekst að gera foreldri hæft í hlutverki sínu nýtist það barninu alveg til fullorðinsára. Ekki síður er mikilvægt að með þessu opnast möguleiki á miklu snemmtækari aðgerðum en með stofnanainngripi. Með því að gera þessa hjálp aðgengilega fyrir foreldra ungra barna er hægt að taka strax fyrir vanda sem ella myndi ágerast á fyrstu æviárum barnsins,“ segir Bragi.

Æskilegt fyrir alla með fyrsta barn

„Þessi þjónusta ætti að vera almenn og tiltæk foreldrum, ekki síst þeim sem eru að eignast sitt fyrsta barn. Fyrir það fólk ætti hún að vera án endurgjalds og ætti ekki síst að beinast að þörfum feðranna. Karlmenn hafa litla sögulega hefð í uppeldi barna sinna og það er ekki sjálfgefið að allir læri fljótt og örugglega að ala upp börn. Við þurfum því að veita körlum tækifæri til að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna strax í frumbernsku þeirra,“ segir Bragi ennfremur. Í svona starfi þurfi þekking úr skólastarfi, heilbrigðisgeira og félagsþjónustu að koma saman, en þjónustan geti verið sveigjanleg og hana sé hægt að veita á vegum heilsugæslustöðva, fræðsluyfirvalda eða með hvaða hætti sem þykir henta.

Í hnotskurn
» Foreldrahæfni er þekking og geta foreldra til þess að nota uppeldisaðferðir sem virka og tryggja börnum öryggi, reglufestu, umhyggju og virðingu svo eitthvað sé nefnt.
» Margt bendir til þess að efling foreldrahæfni með fræðslu geti virkað betur og með varanlegri hætti en margs kyns stofnanainngrip, sem oft koma ekki til sögunnar fyrr en vandamál hafa fengið að ágerast.