Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir gerir athugasemdir við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins: "Þingflokkur VG mun í þessari baráttu nota öll tækifæri sem bjóðast burtséð frá því hvað ritstjóra Morgunblaðsins finnst um frammistöðu okkar í þeim efnum..."

MORGUNBLAÐIÐ er nokkuð sérstakur fjölmiðill. Í aðra röndina er það málgagn Sjálfstæðisflokksins en þegar vafi leikur á því hvort sjónarmið flokksins fara saman með sjónarmiðum ritstjóra blaðsins, þá nýtur ritstjórinn vafans. Prinsipp af þessu tagi eru okkur vinstri grænum vel kunn. Það er t.d. bjargföst trú okkar að náttúran eigi að njóta vafans þegar um framkvæmdir í viðkvæmri náttúru landsins er að ræða og vafi leikur á um áhrifin. Það er því engin sérstök ástæða til að gera athugasemdir við prinsippið sem slíkt, enda fara lesendur ekki í grafgötur um að eftir því er unnið á ritstjórn Morgunblaðsins.

Það er hins vegar full ástæða til að gera athugasemd við sjónarmiðin sem hreyft er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 16. mars sl., þar ræður för einhver undarlegur taugatitringur ritstjóra blaðsins í garð okkar vinstri grænna, sem er svo sem ekki nýr af nálinni. Í bréfinu sakar hann okkur um skort á pólitískum kjarki til að taka afstöðu gegn Samfylkingunni, jafnt á Alþingi sem í borgarstjórn, enda séum við í „sálrænum fjötrum“ gagnvart henni. Nú er það öllum lesendum ljóst að Samfylkingin er í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð ber enga ábyrgð á því samstarfi. Það liggur svo sem ekki fyrir hvort ritstjóri Morgunblaðsins var hafður með í ráðum við ríkisstjórnarmyndunina en ekki er það nú líklegt, ef marka má tóninn í skrifum hans.

Hvað ritstjóranum gengur til með því að leita með þessum hætti eftir stuðningi okkar vinstri grænna í baráttu sinni gegn samstarfsflokknum Samfylkingunni skal ósagt látið en þó má ætla að þar liggi undir djúpstæð löngun ritstjórans til að sjá okkur vinstri græn í einni sæng með Sjálfstæðisflokknum, helst sem víðast, og ekki síður vonbrigði ritstjórans yfir því að ekki tókst að fá Svandísi Svavarsdóttur til að svíkjast undan merkjum í samstarfi þriggja borgarstjórnarflokka fyrir skemmstu og taka að sér ömurlegt hlutverk núverandi borgarstjóra til að koma Sjálfstæðisflokknum aftur að stjórn borgarinnar.

Varðandi ávirðingarnar sem ritstjórinn setur fram gagnvart okkur í Reykjavíkurbréfinu skortir mikið á að VG fái að njóta sannmælis. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur beitt sér af hörku í öllum þeim málum sem nefnd eru í Reykjavíkurbréfinu; s.s. varðandi Evrópusambandsaðild og þátttöku Íslendinga í hernaðaraðgerðum hvers konar, þ.m.t. ferð utanríkisráðherra til Afganistans. Ekki hefur heldur staðið á þingflokki VG að gagnrýna áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu og stefnuleysið í náttúruverndar- og loftslagsmálum. Um þetta vitna bæði umræður á Alþingi og ummæli einstakra þingmanna í fjölmiðlum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun hér eftir sem hingað til veita ríkisstjórninni aðhald og gagnrýna einstaka ráðherra fyrir hvaðeina sem stríðir gegn þeirri pólitík sem við berjumst fyrir, sama hvort þeir koma úr Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu. Þessi ríkisstjórn hefur ekki fengið og mun ekki fá að ryðja einkavæðingu braut í heilbrigðis- og menntakerfinu án þess að svara fyrir þær gjörðir á Alþingi Íslendinga. Hún mun ekki fá að fórna fleiri náttúrugersemum á altari stóriðjunnar án þess að þurfa að svara fyrir það á Alþingi Íslendinga. Hún mun heldur ekki fá að leiða þjóðina lengra inn á braut hernaðarhyggju eða múra hana inn í innsta kjarna NATÓ-samstarfsins án þess að svara fyrir það á Alþingi Íslendinga. Þingflokkur VG mun í þessari baráttu nota öll tækifæri sem bjóðast burtséð frá því hvað ritstjóra Morgunblaðsins finnst um frammistöðu okkar í þeim efnum, og burtséð frá því hvort þeirri baráttu okkar verða gerð sanngjörn skil á síðum Morgunblaðsins eða ekki.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Höf.: Kolbrún Halldórsdóttir gerir athugasemdir við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins