Umheimurinn horfir til Kína um þessar mundir, sem vettvang efnahagslegra kraftaverka. Í Kína er allt að gerast. Allra leiðir liggja til Kína. Uppgangur í efnahagsmálum er ótrúlegur. Í Kína er gífurleg framleiðsluaukning.

Umheimurinn horfir til Kína um þessar mundir, sem vettvang efnahagslegra kraftaverka. Í Kína er allt að gerast. Allra leiðir liggja til Kína. Uppgangur í efnahagsmálum er ótrúlegur. Í Kína er gífurleg framleiðsluaukning. Í Kína er gífurleg aukning í neyzlu og svo mætti lengi telja.

En það eru til fleiri hliðar á Kína. Það er Kína vinnuþrælkunar. Þótt í Kína ríki stjórn alþýðunnar að nafninu til er alþýðunni þrælkað út á vinnustöðum fyrir alger lágmarkslaun en ótrúlegan vinnutíma. Jafnvel forseti Íslands hefur farið til Kína og dásamað uppganginn þar án þess að líta til hægri eða vinstri og hafa orð á vinnuþrælkuninni, sem þar viðgengst.

Kína er líka ríki, sem kúgar fólk. Þar ríkir einræðisstjórn í nafni kommúnismans. Og eins og í ríkjum kommúnismans er fólk kúgað í Kína. Það nýtur ekki frelsis. Það nýtur ekki skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis. Og Kínverjar kúga nágranna sína. Kúgun Kínverja á Tíbetum er einn ljótasti bletturinn á okkar samtíma. Það hefur að langmestu leyti ríkt þögnin um þá kúgun, sem Tíbetar hafa búið við í meira en hálfa öld.

Hvers vegna hefur ríkt svo mikil þögn um kúgunina í Tíbet? Vegna þess, að það hefur ekki hentað hagsmunum Vesturlanda að halda uppi mótmælum gegn kúgun Tíbeta. Það hefur hentað hagsmunum Vesturlanda að horfa framhjá Tíbet.

Eftir að Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir viðurkenndu Pekingstjórnina hefur heldur ekki hentað hagsmunum Vesturlanda að hafa orð á löngun íbúa Taívan til sjálfstæðis. Það er horft fram hjá Taívan. Í grein hér í Morgunblaðinu í gær á Charles Liu, fulltrúi á sendiskrifstofu Taívan í Danmörku, greinilega erfitt með að skilja viðurkenningu Íslendinga á sjálfstæði Kosovo (sem að vísu tók langan tíma að gefa yfirlýsingu um, ótrúlega langan) á sama tíma og Íslendingar eru ekki tilbúnir til að viðurkenna sjálfstæði Taívan og styðja umsókn íbúanna þar um aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Hvers vegna erum við ekki tilbúin til að styðja sjálfstæði Taívan? Vegna þess, að það hentar ekki hagsmunum okkar. Það hentar bara hagsmunum okkar að mati íslenzkra stjórnvalda að hylla ástandið á meginlandi Kína, þótt við mundum fordæma slíkt ástand hjá smærri þjóðum.

Ný ríkisstjórn er augljóslega í leit að nýrri utanríkisstefnu og á erfitt með að finna hana en ríkisstjórnina langar til að vera með stóru strákunum í sandkassaleiknum mikla.

Kjarninn í nýrri utanríkisstefnu okkar Íslendinga gæti verið að reka utanríkispólitík á siðferðilegum grundvelli. Að byggja utanríkispólitík á því, sem við teljum rétt en ekki á því, sem einhverjir telja þrönga hagsmuni okkar.

Slík utanríkispólitík er hvergi rekin. Þess vegna mundi hún vekja athygli.