— 24stundir/Eyþór
Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is Gengi íslensku krónunnar veiktist um sjö prósent í gærdag.

Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

Gengi íslensku krónunnar veiktist um sjö prósent í gærdag. Þessi lækkun kemur í framhaldi af veikingu hennar undanfarna daga en sú lækkun hefur þegar haft þau áhrif að N1 hækkaði í gær verð á eldsneyti vegna gengislækkunarinnar. Búast má við því að almenningur muni finna enn frekar fyrir veikingu krónunnar næstu daga.

„Hefðum átt að hækka fyrr“

Eiríkur Guðnason bankastjóri í Seðlabankanum segir lækkun krónunnar mikið áhyggjuefni. „Það er ekki búið að taka neina ákvörðunum um aðgerðir af hálfu Seðlabankans. Það hefur lengi verið vitað að gengi krónunnar hefur verið óvenjulega hátt og því var viðbúið að gengið myndi lækka. Við höfðum hins vegar vonast til þess að það gerðist ekki á meðan ennþá væri svona mikil spenna í hagkerfinu.“

Næsti fasti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 10. apríl næstkomandi. Eiríkur segir ljóst að stýrivextir verði ekki lækkaðir við það tækifæri. „Það er útilokað að lækka vextina. Ég get ekki fullyrt að þeir verði hækkaðir en það er vissulega möguleiki. Okkur berast sífellt vísbendingar um að spennan í hagkerfinu hafi verið vanmetin og það er ljóst að við hefðum átt að hækka stýrivexti fyrr og jafnvel halda þeim hærri en við gerðum.“

Ríkisstjórnin grípur ekki inn í

Björgvin G. Sigurðarson viðskiptaráðherra segir fall krónunnar gríðarlegt áhyggjuefni. „Þessi þróun ýtir undir þá umræðu sem verið hefur í gangi um framtíðarskipulag peningamála hér á landi. Ég sé ekki fyrir mér að ríkisstjórnin grípi inn í málin á neinn hátt strax. Seðlabankinn hefur lögbundnu hlutverki að gegna í þessum málum og hann mun væntanlega grípa til þeirra aðgerða sem hann telur að gagnist í því skyni að koma á stöðugleika.“

Björgvin segir að til umræðu sé innan ríkisstjórnarinnar að fara í aðgerðir til að draga úr högginu sem fall krónunnar og aukin verðbólga eru fyrir neytendur. „Það verður hiklaust gert þar sem það á við. Til að mynda eru þegar farnar af stað viðræður í landbúnaðarráðuneytinu við búvöruframleiðendur vegna hækkunar á áburðarverði. Það verður farið yfir þessi mál.“

Í hnotskurn
Gengi krónunnar lækkaði um 6,97 prósent í gær. Það er mesta lækkun á einum degi frá því að krónan var sett á flot árið 2001.