Peter Jones fæddist í Middlesborough, Englandi, 26. janúar 1953. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 11. mars síðastliðinn. Ungur að árum missti Peter foreldra sína og dvaldist um tíma hjá ættingjum. Hann lærði til kokks og ferðaðist víða um heim þar til leið hans lá til Íslands árið 1979. Hóf hann störf við fiskvinnslu á Patreksfirði en hélt til Grímseyjar 1981 þar sem hann kynntist konu sinni, Ingibjörgu M. Gunnarsdóttur, f. 7. október 1957. Foreldrar hennar eru Gunnar Konráðsson, f. 1920, d. 2004, og Stella Stefánsdótir, f. 1923. Sonur Peters og Ingibjargar er Helgi Jones pípulagninganemi, f. 13. ágúst 1983, í sambúð með Nönnu Dröfn Björnsdóttur lögfræðinema, f. 20. janúar 1984, og eiga þau tvö börn, Angelu Mary og óskírðan dreng. Börn Ingibjargar af fyrra hjónabandi eru a) Þóra Þorleifsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 7. maí 1977, gift Helga Níelssyni endurskoðenda, f. 1972, þau eiga tvö börn, Hauk og Margréti, og b) Kári Þorleifsson nemi, f. 9. janúar 1981.

Fjölskyldan fluttist árið 1987 til Akureyrar þar sem Peter lærði málmiðn og hóf störf hjá Hitaveitu Akureyrar þar sem hann starfaði til dánardags. Peter var virkur í starfi innan Íþróttafélagsins Þórs þar sem hann sat um árabil í stjórn knattspynudeildar, var formaður unglingaráðs og formaður knattspyrnudeildar um tíma. Peter var einnig í stjórn Starfsmannafélags Akureyrarbæjar þar sem hann gegndi fjölda starfa, þar á meðal varformennsku um skeið.

Útför Peters verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Sæll að sinni, ástin mín,

Þín

Ingibjörg Margrét

(Inga Magga)

Elsku Pétur.

Þú komst inn í líf mitt skömmu áður en ég varð sex ára. Ein af fyrstu minningum mínum um þig er þegar þú gerðir afmælisköku handa mér þegar ég var 6 ára. Eftir það var það þitt hlutverk að hanna og skreyta afmæliskökurnar okkar. Ég man líka að þegar ég var lasin komstu oft með eitthvað skemmtilegt úr kaupfélaginu. Síðasta veturinn okkar í Grímsey varst þú á Súlunni og varst duglegur að senda óvænta pakka heim til Grímseyjar, man ég helst eftir bleiku fínu skólatöskunni minni og öllum íssendingunum, sem þá var algjör munaðarvara í Grímsey.

Þegar við fluttumst til Akureyrar var að sjálfsögðu keyptur bíll og reyndar varstu alltaf að skipta um bíl fyrstu árin okkar á Akureyri, við mismiklar vinsældir fjölskyldunnar. Man ég til dæmis eftir fögrum tárum hjá einni þegar forláta ljósblár Skodi var keyptur, í hann ætlaði ég sko aldrei að fara. Man þó eftir einni ferð í Hagkaup á þeim þrem vikum sem þú áttir hann.

Þú varst duglegur að gera eitthvað skemmtilegt með okkur um helgar. Voru það gjarnan bílferðir, þar sem sundtaskan var með, og ómögulegt var að vita hvar við enduðum, sérstaklega ef afi Nunni var með. Stundum var mamma frekar pirruð þegar við mættum heim löngu seinna en áætlað var, því auðvitað var enginn gemsi til að láta vita af breyttum plönum. Þegar við systkinin byrjuðum í íþróttunum varstu duglegur að fylgjast með okkur. Ef ég var að spila á Þórsvellinum og þú varst ekki á vellinum, gat ég séð móta fyrir þér í stofuglugganum í Borgarhlíðinni. Þegar unglingsárin færðust yfir stóðum við oft í stríði og vorum ekki alveg sammála um mikilvægi allra reglna. Ég hef oft sagt að ég hafi rutt brautina fyrir bræður mína því þegar þú sást að ég komst áfallalaust í gegnum unglingsárin fengu þeir nú mun rýmri reglur, ekki satt?

Þegar unglingsárin liðu hjá urðum við miklir vinir.

Þegar ég fluttist ung að heiman og kynntist Helga fljótlega eftir það varstu iðulega að biðja mig að fara varlega. Þegar við Helgi giftum okkur varðstu meyr þegar ég bað þig að leiða mig inn kirkjugólfið og það var stoltur faðir sem leiddi dóttur sína og pabba Lalla inn gólfið í Grundarkirkju 7. júlí 2001.

Þegar við Helgi áttum von á okkar fyrsta barni hlakkaðir þú mikið til. Þannig fór að rúmum mánuði áður en Haukur fæddist veiktist þú, fékkst hjartastoppið sem þú náðir þér samt svo fljótt og vel af. Þannig tengdir þú fæðingu hans og bata þinn við nýtt upphaf sem þú ætlaðir svo sannarlega að njóta vel.

Allir þínir bestu eiginleikar komu í ljós þegar þú varðst afi. Þú varst ekkert hræddur við litla ungann, bleyjuskipti og svæfingar. Þú saknaðir Hauks mikið þegar við fluttumst með hann suður en hann var ekki gamall þegar hann fór að fara einn í heimsókn norður til afa og ömmu. Þér fannst alltaf svo erfitt að kveðja, en það gerði kveðjustundina alltaf léttbærari ef við vorum búin að ákveða næstu heimsókn.

Þegar við kveðjumst nú er óvíst hvenar við hittumst aftur, en vissan um það og góðar minningar eru huggun á þessum erfiðu tímum.

Takk fyrir allt.

Þín

Þóra.

Margar minningar sækja að þegar við setjumst niður og skrifum minningarorð um pabba, svo löngu fyrr en okkur þykir sanngjarnt. Margar tengjast þær íþróttafélaginu Þór þar sem við bræður stunduðum handbolta og fótbolta og væri synd að segja að pabbi hefði ekki látið það sig skipta. Hann fór í ótal ferðir sem fararstjóri í handbolta- og fótboltaferðum okkar og var kominn í stjórn unglingaráðs knattspyrnudeildar fljótlega eftir að við byrjuðum að æfa með Þór.

Pabbi hafði sérstaklega gott lag á börnum og var vinsæll fararstjóri, svo vinsæll að hann var fenginn í nokkrar ferðir þó við bræður værum ekki að spila með viðkomandi flokki. Hann sat í nokkur ár sem formaður unglingaráðs knattspyrnudeildar og þaðan lá leið hans í stjórn knattspyrnudeildar þar sem hann sat meira og minna frá 1995 til 2008, um tíma sem formaður. Pabbi hlaut bæði silfur- og gullmerki Þórs fyrir störf sín í þágu félagsins.

Þór og Þórsvöllurinn spilaði stóra rullu í okkar uppvexti enda bjuggum við nánast í ,,heiðursstúku“ vallarins þar sem útsýnið úr Borgarhlíðinni yfir völlinn var gott og ósjaldan var horft á leiki þaðan. Sú hefð skapaðist þegar við bjuggum í Borgarhlíðinni að fjöldi ættingja kom í heimsókn á þrettándanum og yngstu börnin gátu fylgst með álfum og jólaveinum meðan þeir eldri gæddu sér á veitingum að hætti mömmu.

Pabbi var afbragðs kokkur og lærðum við ungir að borða ýmislegt sem ekki gat talist hversdagsmatur þá og þær eru orðnir ansi margar veislurnar sem pabbi sá um, ótal fermingarveislur og margir viðburðir á vegum Þórs.

Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst pabba eru sunnudagsrúntar með honum og afa Nunna þegar við vorum pollar. Í slíkar ferðir var haldið með enga ferðaáætlun, nóg af gosi og stóran kassa af Prince Polo. Afi átti það til að stinga upp á ,,smá“ bíltúrum út fyrir bæinn og þegar áfangastað var náð var afi duglegur við að stinga upp á nýjum og nýjum stöðum sem gaman væri að ,,skreppa“ til. Þannig teygðist og teygðist á ferðunum og oft komið langt fram á nótt þegar við komum aftur heim til Akureyrar. Pabbi hafði einstaklega gaman af þessum ferðum enda afi hafsjór fróðleiks um landið og miðin. Það var svo sterkur leikur að opna Prince Polo-kassann ef við bræður fórum að ókyrrast aftur í. Oft fékk afi okkur til að syngja fyrir sig og verðlaunaði svo gaulið með súkkulaðinu sem sennilega hefur oft farið langt yfir æskilegan dagsskammt manneldisráðs. Það er ógleymanlegt þegar við einu sinni vorum að rúnta í Skagafirði og afi mundi allt í einu eftir Siggu frænku sem hann hafði ekki séð lengi. Auðvitað var stefnan tekin þangað og áttum við eftir að fara margar ferðir til Siggu frænku upp frá því.

Það væri hægt að leggja allan Moggann undir skrif um þig pabbi, svo sem þína útgáfu af íslensku máli, hvað þú varst stórkostlegur afi, margar minningar af vellinum og ýmislegt fleira en hér látum við staðar numið, með sárum söknuði en innilegu þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum með þér.

Kári og Helgi.

Elsku afi okkar.

Mikið vorum við heppin að eiga þig fyrir afa, þó það hafi verið svo allt of stutt. Þú varst mikill og einlægur afi. Þú vildir taka þátt í uppeldi okkar og fylgdist vel með okkur. Þið Haukur voruð búnir að eiga margar góðar stundir saman. Þú varst duglegur að fara með Hauk í sund og gera skemmtilega hluti. Þegar litla fjölskyldan bókaði Spánarferð í ársbyrjun 2005 liðu ekki margir dagar þangað til þú hringdir og spurðir hvort afi og amma mættu ekki koma með. Þar áttum við svo yndislegan tíma þar sem þið Haukur brölluðuð ýmislegt meðan mamma, pabbi og amma lágu í sólbaði.

Það varst líka þú, afi, sem kenndir Hauki að borða nammi og gafst honum ís við hvert tækifæri, en þú sagðir alltaf að afar og ömmur mættu spilla uppeldinu. Þú varst líka snillingur í að fegra frekjuköstin okkar, við erum nefnilega ekki frek, vitum bara hvað við viljum.

Elsku afi, við viljum þakka fyrir allar bullusögurnar sem þú sagðir okkur þegar þú varst að svæfa okkur og fyrir fallega sönginn þinn. Það voru nefnilega ófá skiptin sem Haukur sofnaði í afa „holu“ og kom aldrei annað til greina þegar við vorum í heimsókn og fengum að gista. Þá sofnaði Haukur líka oft á bumbunni þinni afi, fyrir framan sjónvarpið, bumbunni sem var að mestu leyti horfin í öllum veikindum þínum.

Það var duglegur lítill strákur sem fór á sjúkrahúsið að kveðja afa og við eigum eftir að sakna þín ósköp mikið þó að Margrét eigi nú varla eftir að muna mikið eftir þér þar sem hún var ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast þér nema fyrstu tvö ár ævi sinnar. Við þökkum líka fyrir stundina sem við fengum með þér á sjúkrahúsinu í Reykjavík nokkrum dögum áður en þú kvaddir en þá var engu líkara en að Margrét væri að kveðja þig þegar hún hljóp í hálsakot þitt og gaf þér „stóran faðm", en hún hafði fram að því verið svolítið feimin við þig í þeirri heimsókn.

Elsku afi, við geymum mynd af þér í hjarta okkar og munum passa elsku ömmu Ingu Möggu fyrir þig og við vitum að Guð mun passa þig uppi á himninum.

Þín elskulegu afabörn

Haukur og Margrét.

Góður drengur er fallinn frá svo allt of, allt of snemma. Við hérna megin sitjum eftir og spyrjum hissa hvers vegna í ósköpunum. Er það virkilega sanngjarnt að Magga mágkona sé aftur orðin ekkja aðeins 50 ára. Ég sem þessar línur skrifa hef þó alltaf verið þakklát þessum þarna uppi fyrir að senda Peter Jones til Grímseyjar þegar Lalli bróðir var fyrirvaralaust kallaður í burtu frá Möggu sinni, Þóru og Kára.

Ekki voru nú allir alveg sáttir þegar Pétur kom með stóra, hlýja faðminn sinn. Þá er ég fyrst og fremst að tala um gamla Óla Bjarnason en fljótlega tókst Pétri að vinna hug og hjarta Óla gamla. Ég minnist þess þegar Pétur var að róa á trillunni sinni í Grímsey hvað pabbi fylgdist vel með hvernig gekk. Hann kom glaður frá bryggjunni í Grímsey og sagði ,,Það var bara gott fiskerí hjá Pétri mínum í dag“ eða: ,,Þetta var ekki nógu gott hjá Pétri mínum, bara to hundrað kíló“.

Já, Pétur kom til Grímseyjar með stóra faðminn sinn og gekk börnunum hans Lalla í föðurstað. Stundum fannst mér hann full-harður uppalandi en þegar Helgi Pé bættist í hópinn skildi ég hvað Pétur var að gera því Helgi Pé, sem var strax mjög duglegur, fékk nákvæmlega sama uppeldi. Þegar nú er komið að sárri skilnaðarstund hópast minningarnar fram. Ég minnist þess þegar Magga og Pétur komu í ferminguna hjá Jóni Gauta. Allt átti að vera klárt og þau áttu bara að vera gestir en eitthvert hugboð sagði mér að biðja Pétur að aðstoða kokkinn sem hann og fúslega gerði. Það átti að nota sherrý í sósuna og auðvitað var það keypt eins og allt annað fyrir veisluna þá arna. Fljótlega eftir að matseldin hófst hringdi kokkurinn og sagði að það vantaði meira sherrý. Auðvitað fór ég á stúfana og reddaði meiru. Þegar ég svo kom með sherrýið hvíslaði Pétur að mér: ,,hann vera fullur“ og þá skildi ég í hvað sherrýið hafði farið. Já Pétur var listagóður kokkur enda útlærður í henni stóru London og víðar.

Þegar Pétur veiktist síðastliðinn áramót tókst mér að heimsækja hann inn á gjörgæsluna. Þá kynnti ég mig eiginlega sem systur hans. Kannski þá skildi ég hvað þessi góði drengur hafði verið í mínu lífi, Hann hreinlega kom í staðinn fyrir Lalla bróður. Núna vil ég þakka Pétri hvað honum tókst listavel uppeldið á Þóru, Kára og Helga Pé. Ég bið góðan Guð að styrkja Möggu mágkonu í hennar sálar sorg, börnin þeirra og barnabörnin sem svo sannarlega eru að missa af stóra, góða faðminum hans Peters Jones.

Birna mágkona.

Esku besti afi minn

Núna ertu kominn til englanna á himninum og ég á eftir að sakna þín svo mikið. Ég er ennþá svo lítil að ég er ekki alveg að skilja að þú komir ekki aftur til mín. Í dag þegar mamma spurði hvort ég vissi hver væri að koma að ná í mig til að passa mig kallaði ég „afa“ og var þvílíkt glöð því ég held að þú komir alltaf aftur til mín því þú hefur alltaf komið aftur þó svo að ég sjái þig ekki í einhverja daga.

Betri afa en þig er ekki hægt að hugsa sér og aldeilis margt sem við höfum gert saman þennan stutta tíma sem við höfum haft. Ekki eru allir jafn heppnir og ég að fá að hafa afa sem einkabarnapíu en eftir að þú fórst í veikindafrí frá vinnunni hafðir þú endalausan tíma til að passa mig. Ekki þótti mér það leiðinlegt enda algjör afastelpa og snerist þú í kringum mig allan tímann sem ég var hjá þér og dekraðir við mig. Þú gerðir allt sem ég bað þig um að gera, enda ég nett ákveðin, og hlógu amma og mamma oft þegar ég náði í púðana í sófann fyrir þig til að setjast á til að kubba með mér og setti þá á gólfið inni í litla herbergi og kallaði svo „afi didja“. Þú varst ekki lengi að hlýða mér og ég skellti svo hurðinni á eftir okkur því amma mátti ekki vera með. Þú varst líka alltaf duglegur að fara með mig í alls konar ferðir í bílnum þínum og fannst mér ekkert skemmtilegra en þegar þú fórst að sýna mér dýrin. Mér fannst nú ekkert smá gaman síðasta sumar þegar ég fór að keyra með þér og pabba og mömmu í Flateyjardal. Það var nú aldeilis löng ferð og þið fullorðna fólkið ekki viss um að ég gæti setið svona lengi í bílnum en ég sannaði nú annað. Við skemmtum okkur svo vel enda fékk ég að prófa að keyra bílinn hjá afa í sveitinnni auk þess sem mér fannst svo fyndið þegar afi keyrði í alla pollana og vatnið skvettist út um allt. Þegar ég fluttist suður í haust saknaði ég þín og ömmu mikið og fékk að koma alein í heimsókn til ykkar og það var ekkert smá gaman.

Núna er ég orðin stóra systir og er svo ánægð að þú hafir fengið að sjá litla sæta bróður minn áður en þú fórst frá okkur. Ég vildi óska að þú hefðir fengið að vera lengur hjá okkur systkinunum og litli bróðir hefði fengið að kynnast því hvað þú varst frábær afi. Þar sem ég er svo lítil og á svo erfitt með að skilja þetta allt saman veit ég að pabbi og mamma eiga eftir að hjálpa mér að muna allar þessar góðu stundir okkar saman en minninguna um þig varðveiti ég í hjarta mínu.

Ég lofa að passa ömmu mína voða vel og veit að litli bróðir á eftir að hjálpa mér þegar hann stækkar.

Þú varst besti afi sem hægt er að hugsa sér og ég mun alltaf elska þig

Þangað til við hittumst á ný –

þín afastelpa,

Angela Mary.

Í dag er til moldar borinn á Akureyri Peter Jones, vinur okkar, sem lést langt fyrir aldur fram. Peter Jones var fæddur í Middlesboro í Englandi 26. janúar árið 1953. Um hans barnæsku vitum við ekki mikið, en ungur að árum fór hann að vinna fyrir sér og ferðaðist víða og vann í ýmsum löndum. Hingað til Íslands kom Peter fyrir tæpum 30 árum og byrjaði sjómennsku frá Patreksfirði. Þar reri hann á línubát en ekki var hann lengi þar og upp úr 1980 fer hann út í Grímsey þar sem hann vann til sjós og lands. Í Grímsey kynntist Peter sambýliskonu sinni, henni Ingu Möggu sem þá var orðin ekkja með tvö lítil börn en Lalli heitinn maður hennar féll fyrir björg kornungur maður. Það er stundum erfitt að skilja lífsins gang. Nú er Inga Magga fimmtug að kveðja sambýlismann sinn til 25 ára og áður hafði hún kvatt eiginmann sinn. Þetta er óréttlátt. Peter og Inga Magga fluttust til Akureyrar árið 1987 og komu sér fyrir í Þorpinu en þá höfðu þau eignast soninn Helga. Peter hóf störf hjá Hitaveitunni og vann þar til dauðadags. Hann varð fljótt trúnaðarmaður starfsmanna enda afar réttsýnn maður og heiðarlegur. Peter hafði mikinn áhuga á knattspyrnu og starfaði mikið í knattspyrnudeild Þórs og var þar formaður um árabil. Hann var mikill Liverpool-aðadáandi og fórum við nokkrir saman í fótboltaveislu til Liverpool fyrir tveimur árum þar sem Peter var fararstjóri og þar var hann á heimavelli. Peter var mikil barnagæla; sáum við það vel á því hvað yngsti sonur okkar laðaðist að honum enda var Peter honum alltaf afar góður. Peter eignaðist fjögur barnabörn en það yngsta er fætt þann 3. mars síðastliðinn og sá hann litla vininn tvisvar sinnum. Barnabörnin löðuðust að afa sínum enda var hann afar ljúfur og góður við þau. Peter vinur, við ætluðum til Englands í vor að kíkja á fótbolta. Ég veit að ef ég fer þá verður þú með mér, ég mun sakna þín. Inga Magga, Þóra, Kári, Helgi, barnabörn og aðrir aðstandendur, djúpar samúðarkveðjur.

Bjarni, Fríður og Hjörvar.

Góður vinur er nú fallinn frá langt fyrir aldur fram og margar minningar um samverustundir koma upp í hugann. Mér er mjög ljúft að hugsa um sjóferð sem ég fór eitt sinn með Pétri til að skoða hafís sem var við Grímsey. Það var sól og rennisléttur sjór, við skoðuðum hafísinn í bak og fyrir og renndum fyrir fisk í leiðinni með góðum árangri. Þegar fór að líða á sjóferðina fór hungur að gera vart við sig, þá dró Pétur upp nesti sem hann hafði tekið til og viti menn, úr varð þessi dýrindis veisla. Já Pétur var snilldar kokkur og þær voru ófáar veislurnar sem hann kokkaði bæði í Grímsey og fyrir Íþróttafélagið Þór þar sem hann vann mjög óeigingjarnt starf og sinnti félaginu af alúð.

Síðastu stundirnar sem ég átti með Pétri voru á jólaballi Gilættarinnar og þar ræddum við mikið saman og meðal annars bílamálin en Pétur var að hugsa um að fá sér jeppa. Nú vona ég að hann rúnti um heima og geima með afa Nunna eins og þeir gerðu svo oft meðan báðir lifðu og höfðu unun af.

Það er sárt að kveðja góðan vin á besta aldri sem átti svo margt ógert með konu sinni, börnum og afabörnum, en lífið heldur áfram í stórri fjölskyldu sem Pétur var mjög svo stoltur af.

Stundin líður, tíminn tekur

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur,

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri,

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Elsku Magga, Þóra, Kári, Helgi og fjölskyldur, megi góður guð veita ykkur styrk og blessa ykkur og minningu Péturs um ókomna tíð.

Hannes Arnar og fjölskylda.

Peter Jones, félagi okkar í stjórn knattspyrnudeildar Þórs, er látinn langt um aldur fram. Við viljum minnast hans með nokkrum orðum. Ferill hans hjá knattspyrnudeild Þórs hófst hjá unglingaráði þar sem hann gegndi formennsku. Síðan tók hann við sem formaður knattspyrnudeildar í eitt ár. Að því loknu tók hann sér stutt hlé áður en hann kom aftur inn í stjórn knattspyrnudeildar, þar sem hann hefur setið síðan síðastliðin 9 ár. Á þessum tíma kom hann að hinum ýmsu störfum hjá knattspyrnudeild auk stjórnarsetu, t.d. liðsstjórn, aðstoð við heimaleiki, vinnu á Pollamótum, umsjón með stuðningsmannaklúbbi og fleira. Hann átti við veikindi að stríða síðastliðin tæp tvö ár en starfaði með okkur af bestu getu. Það var hans vilji að fá að standa í brúnni eins lengi og hægt var. Peter var einn af þessum félögum okkar sem ómetanlegt er að eiga að. Hann var einn af þeim sem gera Íþróttafélagið Þór að því sem það er. Fyrir störf sín hafði hann hlotið bæði silfur- og gullmerki Þórs.

Í dag kveðjum við Peter og sendum eiginkonu hans, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

F.h. knattspyrnudeildar Þórs,

Unnsteinn, Edvard, Sveinn, Halldór, Sævar, Þórólfur, Ragnheiður og Hannes.

Í sorginni ómar eitt sumarblítt lag,

þó er sólsetur, lífsdags þíns kveld.

Því er kveðjunnar stund, og við krjúpum í dag

í klökkva við minningareld.

Orð eru fátæk en innar þeim skín

það allt sem við fáum ei gleymt.

Allt sem við þáðum, öll samfylgd þín

á sér líf, er í hug okkar geymt.

Í góðvinahóp þitt var gleðinnar mál,

eins þó gustaði um hjarta þitt kalt.

Því hljómar nú voldugt og sorgblítt í sál

eitt sólskinsljóð – þökk fyrir allt.

(B.B.)

Fallinn er frá félagi minn Peter Jones. Leiðir okkar Peters lágu fyrst saman 1992 þegar við vorum kjörin til trúnaðarstarfa fyrir STAK, ég sem formaður og hann í fulltrúaráð félagsins. Um haustið var hann síðan kosinn trúnaðarmaður félaga sinna hjá Hitaveitu Akureyrar, nú Norðurorku hf., og síðan endurkjörinn á 2ja ára fresti og var trúnaðarmaður til dánardags. Á þessum árum gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir STAK og síðar fyrir KJÖL, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu. Hann sat í stjórn STAK frá 1995 og varaformaður 2001 – 2004, í stjórn Áfallasjóðs, í orlofsnefnd, fulltrúaráði, í samninganefnd bæði í samningum við Launanefnd sveitarfélaga og við Norðurorku hf., varamaður í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar jafnframt sem hann tók að sér ýmis önnur verkefni. Hann var oddviti norðurbandalags BSRB og sat á þingum BSRB frá 1994 fyrir hönd félagsins. Peter vann við sameiningu STAK við nokkur önnur BSRB-félög og vék þá úr stjórn tímabundið eða meðan starfsstjórn starfaði. Hann sat í stjórn KJALAR frá 2005 til dánardags.

Peter var oft í hlutverki „liðsmannsins“ í samningalotum og á námskeiðum, var óspar að segja okkur brandara og frægðarsögur af „Pekka“ vini sínum í Finnlandi. Peter var lagið að segja sögur og létta okkur lundina og var ágætur leikari. Hann var ekki í vandræðum með að taka að sér eldamennsku á vinnufundum og vék sér aldrei undan verki. Og hann skipulagði árshátíð og þá varð metaðsókn. Peter leysti af á skrifstofu félagsins í sumarfríi og var alltaf reiðubúinn að leggja félaginu lið.

Peter bar velferð félagsmanna ávallt fyrir brjósti og vann af drengskap og dugnaði fyrir bættum kjörum þeirra. Hann var trygglyndur og var ávallt tilbúinn að aðstoða ef á þurfti að halda. Það var gott að leita til hans. Hann gerði miklar kröfur til sín en var ávallt sanngjarn gagnvart félögum sínum. Hans verður sárt saknað í hópnum.

Fyrir hönd KJALAR stéttarfélags eru Peter færðar miklar þakkir fyrir hans góðu störf í þágu félagsins, minning hans mun lifa. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Peter og eiga hann að félaga og vini. Margréti konu hans, börnum þeirra og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arna Jakobína Björnsdóttir,

formaður KJALAR.

Peter vinur okkar er látinn. Ekki grunaði mig þegar að við borðuðum saman kvöldmat mánudaginn 3. mars sl. og ég keyrði hann á eftir upp á Fjórðungssjúkrahús þar, sem hann ætlaði að eyða nóttinni vegna veikinda, sem ágerst höfðu hjá honum upp á síðkastið, að ég myndi fá hringingu morguninn eftir þar sem mér var tilkynnt andlát hans. En það er skammt á milli lífs og dauða.

Þegar vatnsveita Akureyrar og hitaveita voru sameinaðar í eitt fyrir- tæki fyrir um tæpum tuttugu árum kynntumst við Peter, sem þá hafði verið starfsmaður hitaveitunnar, en við Sigtryggur Jónsson (Siddi) vorum starfsmenn vatnsveitunnar.

Minnisstæð eru ferðalög innanlands því Peter var húmoristi mikill og jafnframt snilldarkokkur. Þá voru ófáar Englandsferðirnar, sem farnar voru til að horfa á fótboltaleiki, en Liverpool var uppáhalds- félagið og er margs skemmtilegs að minnast úr þeim ferðum, enda Peter góður ag traustur félagi og nánast forréttindi að ferðast með honum um England þar sem hann talaði lítalausa ensku og þekkti víða mjög vel til.Eitt sinn fórum við nokkrir vinnufélagar til Newcastle að skoða vatnsveitu og fráveitu og hafði Peter skipulagt ferðina alla fyrirfram því hann þekkti víða til þarna, enda var hann frá Middlesbrough og er nánast ógleymanlegt hvað tekið var vel á móti okkur og var það hans góða undirbúnings að þakka.

Þá lét Peter félagsmál mikið til sín taka og starfaði m.a. mikið fyrir íþróttafélagið Þór og starfsmannafélag Akureyrabæjar.

Það er mikil eftirsjá í að missa góðan og traustan vin og félaga, en meiri er þó sorgin hjá eftirlifandi eiginkonu Ingu Möggu og fjölskyldu og sendum við og fjölskyldur okkar innilegustu samúðarkveðjur til þeirra.

Rafn Herbertsson,

Sigtryggur Jónsson.

Lífið er ekki alltaf réttlátt, eða það finnst mörgum við ótímabært fráfall fólks. Þannig var það með andlát Peters Jones, fyrrverandi vinnufélaga okkar hjá Norðurorku hf.

Peter hafði látið af störfum vegna veikinda fyrir nokkru. Við sem unnum með honum viljum þakka kynnin og samveruna og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur á þessari stundu.

Einn í myrkri á leið

einn með vindinn í fang

ekki hræðast þó dimm verði ský.

Þegar stormurinn dvín

syngur þröstur á grein

og stjörnurnar tindra á ný.

Tak regnið í sátt

rétt storminum hönd

rökkrið fyllist ljósi því.

Því von, því von, er ætíð nær.

Þú gengur aldrei einn.

(Þýð. Páll Eyþór.)

Með kveðju frá vinnufélögum.

Páll Eyþór Jóhannsson.