Það sjöunda orðið Kristí „Ég fel minn anda“, frelsarinn kvað, „faðir í hendur þínar“.
Það sjöunda orðið Kristí „Ég fel minn anda“, frelsarinn kvað, „faðir í hendur þínar“.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is HALLGRÍMSKIRKJA í Reykjavík minnist píslarsögu Krists með margvíslegu móti nú í dymbilviku. Upplestur Passíusálma og passíutónleikar eru fastir liðir í helgihaldinu.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

HALLGRÍMSKIRKJA í Reykjavík minnist píslarsögu Krists með margvíslegu móti nú í dymbilviku. Upplestur Passíusálma og passíutónleikar eru fastir liðir í helgihaldinu. Stórviðburður er sýningin á verki Baltasars Sampers sem opnuð var um helgina og blasir við gríðarstór fyrir miðju altari. „Hugmyndin að verkinu varð til eftir að ég heimsótti Cadiz fyrir rúmu ári. Þar skoðaði ég kirkju sem notuð er til íhugunar og þar voru falleg verk, meðal annars smámyndir eftir Goya. Allan tímann var mjög falleg tónlist í bakgrunninum, og á leiðinni út, þegar ég var búinn að skoða, spurði ég kirkjuvörðinn hvaða tónlist þetta væri. Hann sagði að þetta væru Síðustu orð Krists á krossinum eftir Haydn. Ég fór í plötubúð og komst að því að það voru tvær útgáfur til af verkinu, önnur fyrir kvartett, og hin, sú sem ég hafði heyrt, fyrir kór og hljómsveit. Ég keypti báðar og fór að spila um leið og ég kom heim. Ég hafði þetta jafnvel á, áður en ég fór að sofa, því tónlistin er svo falleg. Ég fór að lesa textann, og það rann upp fyrir mér hvað verkið er áhugavert. Þetta eru ekki bara sjö orð Krists á krossinum, heldur eru þau líka dæmi um það sem við upplifum í okkar eigin krossfestingum á jörðinni; þegar okkur líður illa, þegar við verðum fyrir stórum áföllum, þegar við missum trúna, þegar við fyrirgefum – þetta er há-fílósófísk afstaða sem birtist í þessum sjö orðum – nánast summa trúarinnar. Ég ákvað að reyna að mála þetta.“

Baltasar ákvað að mála eina mynd fyrir hvert orð, og sú mynd yrði ekki mynd af Kristi á krossinum, heldur andlistmynd af honum við hvert orð. Baltasar ákvað röð myndanna af því hvernig orðin sjö birtast í Passíusálmunum.

Of stórt fyrir forsal kirkjunnar

„Það er oft sagt á Spáni að andlitið sé spegill sálarinnar. Hvað er þá betra en að nota svipbrigði Jesú á krossinum til að flytja þetta erindi. Úr þessu fór ég að vinna og var byrjaður að teikna og skissa þegar mér var boðið að sýna hérna.“ Baltasar fannst í fyrstu ekki koma til greina að bjóða þetta verk, því það yrði stórt og einungis hægt að sýna smærri verk í fordyri Hallgrímskirkju. „Svo fór ég að hugsa með mér: Því ekki að klára verkið og taka sjensinn á að hægt yrði að sýna það í kirkjunni? Ég gerði það og þegar Þóra Kristjánsdóttir í stjórn Listvinafélagsins kom og sá verkið hjá mér varð hún mjög snortin og sagði listráði kirkjunnar frá. Smátt og smátt tókst að sjá við öllum hugsanlegum erfiðleikum. Þau héldu fyrst að ég vildi hengja verkið upp, en í mínum huga stendur kross á jörðu, og þannig vildi ég hafa það.“

Myndirnar sjö, stórar hver um sig, eru settar saman fimm í lóðréttri röð og tvær til hvorrar handar – þær mynda kross. Þær eru festar í stóran stillans, sem Baltasar segir að sé kross í nútíma skilningi. „Þú sérð að þegar þetta er komið upp, mega myndirnar ekki smærri vera.“

Baltasar vildi ekki notast við hefðbundna mynd af Kristi – þennan síðhærða, skeggjaða, vel greidda og bráðmyndarlega mann sem allir þekkja.

„Á krossinum er Jesús blautur, sveittur og fölur, og þann mann vildi ég nota, án þess að velta mér upp úr blóði, tárum og marblettum. Þess vegna er myndin mjög grá, en það eru samt litir í henni. Það var líka komið myrkur þegar Kristur var krossfestur eins og Biblían segir. Því er birtan í myndunum nánast eins og tunglsljósið,“ segir Baltasar. „Ég vona að þetta skili sér. Tilgangur minn er að tjá þessa hugsun, þær tilfinningar sem ég upplifað og sýna Jesúm á krossinum í nýju og manneskjulegra ljósi.“

Pärt og Passíusálmarnir

„ÞETTA er í tuttugasta sinn sem Passíusálmarnir eru fluttir hér á föstudaginn langa,“ segir Inga Rós Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Listvinafélags Hallgrímskirkju. „Við vorum frumkvöðlar að þessari hefð, og það er gaman að sjá hvernig hún hefur vaxið og breiðst út.“ Að þessu sinni verða það félagar úr Mótettukór kirkjunnar sem lesa sálmana frá kl. 13 til 19, en kórinn syngur þá sálma sem tíðkast að syngja. „Kórinn var sendur í áheyrnarpróf fyrir lesturinn og 25 kórfélagar koma til með að lesa.“ Annar stórviðburður verður í kirkjunni á skírdag, er flutt verður Passio eftir Arvo Pärt, byggð á píslarsögunni eins og hún birtist í Jóhannesarguðspjalli, að sögn Ingu Rósar. Passía Pärts er samin við latneskan texta en íslenskir textar verða í tónleikaskrá. „Það eru tvö einsöngshlutverk í verkinu, Kristur og Pílatus. Tómas Tómasson syngur Krist og Þorbjörn Rúnarsson Pílatus. Einsöngvarakvartett úr Schola cantorum fer með hlutverk guðspjallamannsins, og kórinn er í hlutverki lýðsins.“ Caput leikur með söngvurunum en Hörður Áskelsson stjórnar. „Þetta er eitt frægasta verk Pärts, en heyrist nú í fyrsta sinn á Íslandi.“
Í hnotskurn
» Baltasar Samper fæddist 1938 á Spáni en hefur búið á Íslandi frá 1963.
» Baltasar málar, vinnur grafík og skúlptúra.
» Hann er þekktur fyrir kirkjuverk sín, eins og stóru freskuna í Víðistaðakirkju.
» Verkið Sjö orð Krists á krossinum er unnið með „encaustic“ tækni á striga; litirnir eru innbrenndir í vax og harpex.
» Verkið stendur til 5. maí.