Þótt tilboðin tvö sem bárust í 9 mánaða tilraunarekstur deildar fyrir aldraða með heilabilun á Landakoti hafi verið nokkuð hærri en sú upphæð sem Landspítala var gert að reka deildina á er ekki útilokað að öðru þeirra verði tekið.

Þótt tilboðin tvö sem bárust í 9 mánaða tilraunarekstur deildar fyrir aldraða með heilabilun á Landakoti hafi verið nokkuð hærri en sú upphæð sem Landspítala var gert að reka deildina á er ekki útilokað að öðru þeirra verði tekið. Landspítalinn fær greiddar 18.260 krónur á hvert rúm en lægra tilboðið sem Ríkiskaupum barst nemur tæplega 21 þúsund krónum. Á ársgrundvelli eru það rúmar 17 milljónir fram yfir það sem Landspítalinn fær greitt og sem spítalinn yrði þá að greiða fyrirtæki úti í bæ af öðru rekstrarfé sínu, að sögn Valgerðar Bjarnadóttur, sviðsstjóra innkaupa- og vörustjórnunarsviðs.

Hitt tilboðið hljóðaði upp á rúmar 25 þúsund krónur.

„Þótt þessi tilboð séu hærri en Landspítalinn fær greitt fyrir hvert rúm gæti spítalinn metið stöðuna þannig að hann geti ekki mannað deildina. Opinberum stofnunum hefur ekki gengið jafn vel að ráða fólk og einkaaðilum síðustu misserin,“ segir Guðmundur Hannesson, forstöðumaður ráðgjafarsviðs Ríkiskaupa. Guðmundur segir matsnefnd fjalla um málið fljótlega eftir páska.

Ingibjörg Hjaltadóttir, sviðsstjóri hjúkrunar á Landakoti, segir ástæðuna fyrir útboðinu á rekstri deildarinnar, sem var lokað 29. febrúar, hafa verið þá að illa hafi gengið að manna og að kostnaður vegna mikillar yfirvinnu starfsfólks hafi verið hár.