— 24stundir/RAX
Það gæti orðið töluvert af ókláruðum eða óseldum húsum ef fram fer sem horfir þar sem erfiðara er fyrir verktaka að nálgast fjármagn. Verktakar hafa þó brugðist rétt við með því að minnka nýframkvæmdir.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@24stundir.is

Undanfarið hefur verið mikill lánsfjárskortur hérlendis og verktakar hafa fundið glögglega fyrir því, sem og aðrir húsbyggjendur. Mörgum hefur því reynst erfitt að nálgast fjármagn til að ljúka byggingu eða hefja ný verkefni.

Davíð Björnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri á fyrirtækjasviði Landsbankans, segir að það verði örugglega eitthvað um það að hús standi ókláruð í einhvern tíma vegna skorts á fjármagni. „Eins verður eitthvað um það að hús seljist ekki. Menn verða því hugsanlega að sætta sig við lægra verð en áður. Það hefur aðeins þrengst um og það er kannski ekki erfiðara að fá fjármagn en menn eru farnir að setja hertari kröfur en áður, veðsetningarhlutföll eru orðin lægri í dag og vextir hafa hækkað nokkuð. Í okkar tilviki er það þannig að við lánum síður eða jafnvel alls ekki í ný verkefni hjá byggingarverktökum á meðan við klárum að sjálfsögðu það sem við erum byrjaðir á. Það er náttúrlega lánsfjárskortur á alþjóðlegum mörkuðum þannig að það er alveg augljóst að við erum ekki að sækjast eftir nýjum verkefnum í dag. “

Fullt af útboðum

Aðspurður hvernig sé best að verktakar bregðist við þessum skorti á fjármagni segir Davíð að þeir geti bara brugðist við með einum hætti. „Það er að minnka eða draga úr nýframkvæmdum og halda sig við það sem þeir eru byrjaðir á. Eins geta þeir breytt fókusnum, úr því að byggja íbúðarhúsnæði fyrir eigin reikning í það að fara í reikningsvinnu fyrir aðra. Það er fullt af útboðum fyrir opinbera aðila, bæði í gangi og á döfinni. Mér sýnist sem verktakar hafi brugðist mjög skynsamlega við þessu ástandi,“ segir Davíð og bætir við að það sé ómögulegt að segja hve lengi þetta ástand varir.

„Nýverið hafa verktakafyrirtæki boðist til að brúa bilið fyrir kaupendur með láni. Það er þá í þeim tilvikum sem búið er að lána viðkomandi til þess að koma húsinu upp og það er komið upp. Þá er vandamálið hvort kaupendahópurinn er til staðar, lánin eru því bara til að tryggja það að verktakinn sitji ekki með eignirnar óseldar því að það kostar þá mikið í vaxtagreiðslum og er fljótt að höggva í þann hagnað sem þeir ætluðu að hafa af verkefninu.“