Boltað Unnið í manngerðum helli í Jökulsárgöngum, þar sem síðasti risabor Impregilo verður tekinn í sundur eftir að hann slær í gegnum síðasta berghaftið í apríl n.k.
Boltað Unnið í manngerðum helli í Jökulsárgöngum, þar sem síðasti risabor Impregilo verður tekinn í sundur eftir að hann slær í gegnum síðasta berghaftið í apríl n.k. — Ljósmynd/Þórhallur Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is ÞAÐ er mál manna sem unnið hafa við byggingu Kárahnjúkavirkjunar að þessi vetur sé sá erfiðasti á byggingartímanum.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

ÞAÐ er mál manna sem unnið hafa við byggingu Kárahnjúkavirkjunar að þessi vetur sé sá erfiðasti á byggingartímanum. Vetrarhörkur hafa verið miklar á svæðinu og snjóruðningstæki unnið dag og nótt við að skafa vegi og slóða og ekki dugað til. Þá hefur tafið að það skefur fyrir aðkomugöng og jafnvel inn í þau, en þá var brugðið á það ráð að tjalda fyrir opin.

Mest fer fyrir neðanjarðarvinnu um þessar mundir á virkjunarsvæðinu sökum veðurlagsins. Unnið er að lokafrágangi í aðkomugöngum sem liggja að hinum 40 km löngu aðrennslisgöngum virkjunarinnar frá Hálslóni í stöðvarhúsið. Í þau hafa verið steyptir gríðarmiklir steintappar og þeim ýmist alveg lokað til frambúðar eða með stálhlerum sem hægt er að opna til að komast að til viðhaldsverkefna síðar meir. Alls eru tilheyrandi virkjunarframkvæmdinni 73 km af sprengdum, boruðum og heilboruðum göngum.

Risaborinn á síðustu metrum

Um 300 manns vinna á öllu virkjunarsvæðinu og þar af um 100 við Hraunaveitu, þar sem helmingur er útlendingar. Þar verður unnið yfir páskana, nema á páskadag, en annars staðar taka menn frí yfir páskadagana. Gianni Porta, yfirmaður Impregilo á Íslandi, er farinn úr landi og við tók verkfræðingurinn Richard Greyham, sem verið hefur tæknilegur yfirmaður Impregilo við Kárahnjúkavirkjun frá upphafi. Hátt í 1500 manns unnu að virkjuninni þegar mest var árið 2005.

Meginþungi virkjunarframkvæmdarinnar er nú austan Snæfells. Tæplega 500 metrar eru óboraðir í Jökulsárgöngum og gerir Landsvirkjun ráð fyrir að heilborun verði að fullu og öllu lokið í byrjun apríl, komi ekkert óvænt upp á. Bergið er hagstætt þar sem borinn er staddur, en færiböndin aftan í honum munu bæði slitin og bilunargjörn og tefur það nokkuð fyrir.

Verið er að undirbúa helli þar sem síðasti risaborinn af þremur verður tekinn í sundur eftir að hann slær í gegnum síðasta berghaftið. Þar verður hann tekinn sundur á u.þ.b. 12 vikum og fluttur úr landi.

Unnið er við frágang bæði í Kelduár- og Grjótárgöngum og þeim fyrrnefndu næstum lokið.

Framkvæmdum lýkur að fullu um mitt ár 2009 með frágangi Hraunaveitu. Jökulsárveita verður tekin í notkun í sumar ef að líkum lætur.

Vantar 20MW til álversins

„Það gengur allt vel með virkjunina,“ segir Guðmundur Pétursson, yfirverkefnisstjóri Kárahnjúkavirkjunar, sem staddur er á ráðstefnu í Vietnam. „Við erum komnir upp í 550 MW, allar sex vélar inni og allt í ljómandi góðu lagi. Álverið er komið með 520MW og vantar því ekki nema 30MW upp á fulla keyrslu.“

Aflvél 1 í Fljótsdalsstöð var á ný tengd við byggðalínu 1. febrúar eftir að vatnshjól hennar hafði verið tengt og búnaður sem notaður var við launaflsrekstur rafalans, fjarlægður. Síðan þá hafa staðið yfir ýmsar prófanir á vélinni en þeim lauk fyrir örfáum dögum og þar með er sjötta og síðasta vél stöðvarinnar útskrifuð.

Vélar standast allar kröfur

Prófanir á vél 1 voru ítarlegri en gerðar voru á hinum, til þess að sannreyna hvort þær uppfylltu skilyrði sem sett voru í samningum við framleiðandann, m.a. um aflgetu og nýtni. Prófanirnar benda eindregið til að vélarnar standist allar þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Vélar 2 til 6 voru teknar í rekstur í nóvember 2007. Þá lauk jafnframt launaflsrekstri vélar 1 og tekið var til við að prófa hana til fulls með vatni áður en hún var tekin í gagnið.

Í hnotskurn
» Mikið vetrarríki hefur gert starfsmönnum við Kárahnjúkavirkjun erfitt fyrir og er þetta að sögn þeirra erfiðasti veturinn til þessa.
» Mestur framkvæmdaþungi er í Hraunaveitu austan Snæfells. Áhersla er lögð á neðanjarðarvinnu vegna veðurlags.
» Síðasta aflvél virkjunarinnar af sex var nýlega útskrifuð úr prófunum og tengd byggðalínu.
» Virkjunin skilar nú því sem næst fullri orku til álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.