Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands og formaður Samtaka fjárfesta, með meiru, er einn af fáum mönnum, sem halda stjórnendum stórra almenningshlutafélaga við efnið á aðalfundum félaganna og í almennri umræðu.

Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands og formaður Samtaka fjárfesta, með meiru, er einn af fáum mönnum, sem halda stjórnendum stórra almenningshlutafélaga við efnið á aðalfundum félaganna og í almennri umræðu.

Vilhjálmur hefur verið óþreytandi að gagnrýna það sem hann hefur talið hæpna stjórnarhætti og óskynsamlega ráðstöfun fjármuna hluthafa. Hann hefur staðið vörð um hagsmuni smærri hluthafa, meðal annars með fyrirspurnum um laun og hlunnindi stjórnenda.

Í viðtali við 24 stundir á laugardag ræddi Vilhjálmur tregðu hluthafa á Íslandi til að láta að sér kveða á aðalfundum hlutafélaga. „Það eru ekki einungis litlir hluthafar sem spyrja ekki, því stóru hluthafarnir sem eru ekki aðilar að stjórnum þegja líka,“ sagði Vilhjálmur. „Það er engin hefð fyrir því á Íslandi að hluthafar tali á hluthafafundum hvort sem vel gengur eða illa.“

Vilhjálmur telur að ástæðurnar fyrir þessu séu margvíslegar; feimni, vanþekking og jafnvel sleggjudómar í garð þeirra, sem þora að kveðja sér hljóðs og gagnrýna eða spyrja. „Fólk er kannski hrætt við að tjá skilningsleysi sitt. Þetta er ekki endilega vegna skorts á upplýsingagjöf því hún getur vel verið í lagi. En menn spyrja ekki um samhengi upplýsinganna,“ segir Vilhjálmur.

Fleiri mættu gjarnan fara að fordæmi Vilhjálms Bjarnasonar og spyrja og gagnrýna á hluthafa- og aðalfundum. Í nágrannalöndum okkar hefur slíkt iðulega skilað raunverulegum árangri, ekki sízt í því að koma böndum á fráleitlega há laun stjórnenda í almenningshlutafélögum. Samtök smærri fjárfesta og bandalög, sem stofnanafjárfestar hafa gert sín á milli, hafa iðulega náð fram breytingum á starfskjarastefnu hlutafélaga.

Margir Íslendingar eiga ekki beinan hlut í almenningshlutafélögum, heldur eru eigendur í gegnum lífeyrissjóðinn sinn. Það er umhugsunarefni hvers vegna lífeyrissjóðirnir eru ekki virkari í aðhaldi með stjórnun og rekstri félaganna en raun ber vitni. Getur það verið vegna þess að stjórnir sjóðanna sækja ekki umboð sitt beint til sjóðfélaganna? Er ekki líklegt að sjóðirnir yrðu virkari í hagsmunagæzlu fyrir hluthafa, ef sjóðfélagarnir kysu sér stjórn sjálfir, í stað þess að stjórnarkjörið sé liður í samtryggingu vinnuveitenda og verkalýðsforystu um völd í atvinnulífinu?