Fullt hús Henrik Danielsen lagði alla andstæðinga sína á Íslandsmótinu í Fischer random, sem Skákfélagið Hellir stóð fyrir um síðustu helgi.
Fullt hús Henrik Danielsen lagði alla andstæðinga sína á Íslandsmótinu í Fischer random, sem Skákfélagið Hellir stóð fyrir um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
14.-28. mars 2008

HEIMSMEISTARINN Wisvantahan Anand ætlar greinilega ekki að láta staðar numið eftir frækinn sigur á ofurmótinu í Morelia og Linares á dögunum. Hann hefur strax náð forystu á Melody Amber-mótinu í Mónakó. Þetta mót er að því leyti til sérstakt að 12 skákmenn tefla tvöfalda umferð, ellefu blindskákir og ellefu atskákir 20 5. Hollenski milljarðamæringurinn Joop van Osterom heldur mótið til heiðurs dóttur sinni, Melody Amber. Ekki væsir um keppendur í Mónakó sem búa á hóteli sem ber nafnið Höll Miðjarðarhafsins.

Eftir fyrstu tvo keppnisdagana eru Anand, Ivantsjúk og Aronjan efstir með 3 vinninga. Í 4.-5. sæti koma svo Venselin og Magnús Carlsen með 2½ v. Anand og Kramnik munu tefla heimsmeistaraeinvígi á hausti komanda og þess vegna var mikill spenningur fyrir viðureign þeirra í Mónakó. Kramnik er einn sigursælasti keppandinn á þessu móti með sex sigra en mótið er nú haldið í sautjánda sinn. En hann mátti lúta í lægra haldi fyrir Anand, sem hefur unnið mótið fimm sinnum. Anand hristi fram úr erminni einhvern „svalasta“ vinningsleik seinni ára, 42.... Df3. Skákin fer hér á eftir:

Amber-mótið í Mónakó; 2. umferð:

Vladimir Kramnik – Wisvanathan Anand

Drottningarindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 b6 4. g3 Ba6 5. b3 Bb4+ 6. Bd2 Be7 7. Bg2 c6 8. Bc3 d5 9. Re5 Rfd7 10. Rxd7 Rxd7 11. Rd2 0-0 12. 0-0 f5 13. Hc1 Rf6 14. Bb2 Bd6 15. Rf3 De7 16. e5 Hac8 17. Rd3 Hfd8 18. He1 De8 19. e3 g5 20. Hc2 g4 21. Dc1 De7 22. Hd1 Re4 23. c5 dxc5 24. dxc5 Bb8 25. Re5 Rg5 26. Da1 Rf7 27. Rxf7 Kxf7 28. a4 h5 29. b4 h4 30. b5 Bb7 31. Hdc1 Kg6 32. Be5 Bxe5 33. Dxe5 Df6 34. Dd4 e5 35. Db4 hxg3 36. hxg3 Hd7 37. Da5 Hh8 38. Dxa7 f4 39. exf4 exf4 40. gxf4 Hdh7 41. Db6 Dxf4 42. bxc6

42.... Df3 43. cxb7+ Kf5 – og Kramnik gafst upp.

Henrik Danielssen vann fyrsta Íslandsmótið í „Fischer-random“

Fischer-random eða Skák 960 hefur átt nokkrum vinsældum að fagna undanfarið en nú eru um 15 ár síðan frægasti talsmaður þessa skákafbrigðis átti í samningaviðræðum við skákdrottninguna Judit Polgar um einvígi. Ekkert varð þó úr þeim fyrirætlunum. Fischer-random hefur þann kost að erfitt er að koma sér upp mikilli byrjanaþekkingu en vitanlega er hefðbundna upphafsstaðan sem allir skákmenn þekkja ein af 960 mögulegum stöðum. Reglur Fischer–random eru auðskiljanlegar; í upphafsstöðunni standa taflmenn hvíts og svarts eins, kóngurinn verður að vera á milli hrókanna og biskuparnir mega ekki vera samlita. Stutt hrókun eða löng hrókun gerist eins og í klassískri skák, standi hrókurinn t.d. á b1 og kóngurinn á d1 og hvítur vilji hrókera langt þá staðsetjast þeir á c1 og d1 eins og venjulega.

Allmikla athygli vakti fyrir nokkrum árum þegar Kasparov lýsti því að Fischer-random væri ágætistilbreyting frá venjulegri skák. Anand, Kramnik og Aronjan hafa allir teflt Fischer-random og í Þýskandi hefur verið stofnað sérsamband utan um greinina.

Taflfélagið Hellir stóð fyrir fyrsta Íslandsmótinu í Fischer-random um helgina. Af einhverjum ástæðum nefndu forsvarsmennirnir þetta Íslandsmótið í slembiskák en að hefða slík nafngift kemur einfaldlega ekki til greina. Hugsanlegt er að hitt nafnið, Skák 960 vinni á enda var Fischer sjálfur ekkert á móti því. Alls mættu 17 skákmenn til leiks og var tímafyrirkomulagið 4 2 þ.e. 4 mínútur á skák og tvær aukasekúndur. Henrik Danielssen vann öruggan sigur vann allar skákir sínar, níu talsins. Í 2.-3. sæti komu Halldór Brynjar Halldórsson og Gunnar Björnsson með 6 vinninga. Í 4.-5. sæti voru svo Omar Salama og Páll Andrason.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Höf.: Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)