— 24stundir/Valdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Íbúasamtökin ætla að taka þátt í hreinlætisdegi í maí,“ segir Eva María, nýskipaður formaður Íbúasamtaka miðborgarinnar, þar sem hún stendur á miðjum Laugavegi og lítur í kringum sig. Gangstéttin er útötuð í tyggjóslettum og hvert sem litið er má sjá krot og krass á veggjum.

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur dista@24stundir.is

„Nú taka íbúarnir til óspilltra málanna,“ heldur Eva María áfram. „Við ætlum út með málningarpenslana og mála yfir veggjakrotið og taggið og taka til í miðbænum.“ „Engu máli skiptir hver gerir hvað á þessum tíma,“ segir Eva María. „Því að það þarf taka til hendinni og það strax. Íbúum þykir vænt um miðborgina og vilja leggja sitt af mörkum. Auðvitað er þetta ekki íbúanna skylduverk, þeim stendur hins vegar ekki á sama að hér sé gengið um eins og í einhverri svínastíu og sú leið að taka til og gera við er ágætis leið til að sýna vilja í verki og er táknrænt upphaf á þeirri uppbyggingu sem er nauðsynleg hér.“

Laugavegurinn átakasvæði

„Ýmislegt hefur gengið á í götunni,“ segir Eva María um Laugaveginn. „Stjórnmálamenn og húseigendur koma og fara, hús eru rifin og önnur rísa í þeirra stað. Laugavegurinn er og hefur verið átakasvæði og nú er svo komið að hann hefur verið talaður niður og komin svo mikil þreyta í mannskapinn að hér er allt lamað.“ Eva María þarf ekki annað en að benda í kringum sig á tómt verslunarhúsnæði, ótal ljót sár í götumyndinni, útkrotaða veggi og illa frágengin byggingarpláss til að styðja mál sitt. „Ég kvíði þeim tíma þegar niðurrifið hefst og torfært verður um Laugaveg. Framkvæmdirnar mega alls ekki taka langan tíma, þetta er viðkvæmt svæði. Undirbúningur fyrir slíkar framkvæmdir þarf að vera vandaður.“

Útisundlaug á þaki

„Íbúasamtökin munu hafa margt að markmiði sínu og vinna að hag íbúa miðborgarinnar. Ekki mun allt snúast um Laugaveginn, miðborgin er meira en sú gata. Við viljum bæta þjónustu við íbúa miðborgarinnar. Hér vantar til dæmis tilfinnanlega útisundlaug,“ segir Eva María og segir frá ágætri hugmynd um að koma slíkri fyrir á húsþaki einhverrar byggingar miðborgarinnar þar sem útsýni er við sjóinn. „Þá hefur ekki verið hægt að kaupa ferska kjötvöru í kjötverslun í langan tíma og okkur finnst verulega skorta á góð leik- og athafnasvæði fyrir börn. Þá er nóg komið af því hvernig sumir eigendur vanrækja húsin sín, það þarf að hvetja til viðhalds, veita til þess peningum og síðan þarf að nýta þau aðhaldsúrræði sem eru fyrir hendi til að menn sýni náunganum þá tillitssemi að halda húsum og eigum í horfinu. Mér finnst það megn dónaskapur gagnvart samborgurunum að láta húseignir drabbast svona niður á götu sem allir fara um og er helsta andlit borgarinnar í augum gesta. Miðbæjarbúar ættu að fá að vera stoltir af hverfinu sínu. Það væri öllum fyrir bestu.“