Helga Helgadóttir
Helga Helgadóttir
Helga Helgadóttir skrifar um stöðu ungra kennara sem hyggja á framhaldsnám: "Fjallað er um stuðning við unga kennara sem vilja sækja sér framhaldsmenntun. Sveitarfélögin og KÍ setja það sem skilyrði að hafa kennt í 10 ár."

Á ÍSLANDI er skóli án aðgreiningar yfirlýst stefna skólayfirvalda og grunnskólum ber skylda til að starfa samkvæmt henni. Megináherslan er að tryggja fullgilda þátttöku allra nemenda og jafnrétti til náms (Stefna fræðsluráðs Reykjavíkur um sérkennslu, 2002). Starfsfólki í skólum er jafnframt ætlað að tileinka sér viðhorf og þekkingu sem samræmast stefnu um skóla án aðgreiningar og starfa samkvæmt þeim. Það er því ljóst að gífurleg krafa er gerð til fagmennsku kennara.

Endurmenntun er nauðsynlegur liður í starfi kennarans til að hann eflist og bæti sífellt nýrri þekkingu ofan á reynslu sína. Framhaldsnám grunnskólakennara á sviði skólamála er eitt grundvallaratriði þess að grunnskólinn geti risið undir þeim kröfum sem lagðar eru á herðar hans og haldi áfram að vera einn af hornsteinum samfélagsins. Allar rannsóknir sýna fram á að þekking og viðhorf kennara skiptir mestu máli þegar kemur að framþróun stefnu um skóla án aðgreiningar. Flott og dýr aðstaða, s.s. ný skólahús, sérhannaðar byggingar, tæki og tól eru nær einskisverð ef starfsfólk skóla býr ekki yfir nægilegri þekkingu, þjálfun og réttu viðhorfi. Það er því mikilvægt að kennarar sem leggja metnað sinn í að starfa eftir Aðalnámskrá geti með góðu móti bætt við menntun sína og þekkingu til að velferð nemenda sé ávallt í forgrunni. Jafnframt skiptir máli að átta sig á að fagleg þekking kennara byggist á því að vera sífellt móttækilegur fyrir breytingum og hrinda burt hindrunum sem koma í veg fyrir þátttöku allra nemenda. Því verða kennarar markvisst að lesa sér til, sækja námskeið og ræða saman um nýja þekkingu og lausnir.

Eftir þriggja ára kennslu fannst mér nauðsynlegt að fara í framhaldsnám til að geta betur mætt þörfum nemenda minna. Ég valdi sérkennslufræði vegna þess að í raun þurfa allir kennarar að sinna sérkennslu í dag inn í hinum almenna bekk og einkum umsjónarkennarar. Námið er frábært og tekur á mörgum þáttum sem ég hafði áður ekki haft kunnáttu til að bregðast við. Framhaldsnám í sérkennslufræðum ætti í raun að vera hluti af grunnnámi allra kennara því krafa um hæfni þeirra er sífellt að aukast. Það ætti vissulega að skila okkur betri þjónustu fyrir nem endur og foreldra.

Kennarar geta sótt styrk til náms á tvenns konar vettvangi. Annars vegar til þess sveitafélags sem þeir starfa hjá og hins vegar til Kennarasambandsins. Styrkirnir geta verið fólgnir í ákveðinni upphæð fyrir ákveðnar einingar og verkefni eða sem laun yfir einn vetur fyrir fullt nám. Eftir þrjá vetur í þessu námi ásamt fullri kennslu hef ég náð að ljúka 30 eininga diplomanámi. Það vita allir sem hafa reynt að slíkt álag er nokkuð slítandi og varla boðlegt fjölskyldu manns nema bara í ákveðinn tíma. Ég ákvað því að sækja um launað starfsleyfi til Reykjavíkurborgar og Kennarasambandsins til að geta lokið við námið á einum vetri og komið fílefld aftur til starfa. Í umsókninni fjallaði ég um brennandi áhuga minn og áherslur sem hafa það eitt að markmiði að skila betri þjónustu við börn og foreldra. Ég lagði ríka áherslu á að menntun mín myndi skila sér í beinum samskiptum við nemendur og ég hefði mestan áhuga á almennri kennslu. Ég tel mikilvægt að kennarar sem sækja framhaldsmenntun haldi áfram að starfa á „akrinum“ en hverfi ekki eingöngu í störf ráðgjafa og nefnda þó að það sé auðvitað mikilvægt einnig. Það er skemmst frá því að segja að ég fékk synjun frá báðum aðilum. Forsendurnar voru þær að ég hefði ekki kennt í 10 ár en það er sett fram sem skilyrði til að umsóknin sé svo mikið sem lesin yfir. Hefði umsókn minni verið synjað á þeim grundvelli að hagur nemenda hefði fyrst og fremst verið hafður að leiðarljósi og hvað kæmi þeim best gæti ég ekki gert við það nokkrar athugasemdir enda eigum við alltaf að stefna að því að gera skólann og starfsfólk hans betur í stakk búið til að þjónusta nemendur. Ungir kennarar sem hafa kennt í þrjú til sex ár hafa viðað að sér mikilvægri reynslu og eru því oft afar tilbúnir að bæta við sig framhaldsmenntun. Þessir kennarar eru í flestum tilvikum ferskir í starfi, frjóir í hugsun og starfa af miklum krafti og elju. Að sama skapi eru þeir að eignast og ala upp börn og því mikið að gera hjá þessum kennarahópi. Þess heldur á að styðja þennan hóp í að sækja sér aukna menntun því það skilar sér til baka. Að sjálfsögðu á að meta hverja umsókn með það fyrir augum að bæta grunnskólann og skila árangursríku og faglegu skólastarfi undir formerkjum stefnu um skóla án aðgreiningar. Það getur ekki gerst með því að skilyrða kennara til að kenna í a.m.k. 10 ár áður en þeir eiga raunhæfa möguleika á að fá launað starfsleyfi. Slíkar forsendur eru letjandi og ófaglegar og grunnskólanum sannarlega ekki til framdráttar.

Höfundur er grunnskólakennari, nemi í sérkennslufræðum við KHÍ og þriggja drengja móðir.

Höf.: Helga Helgadóttir