Lærisveinar Kevins Keegans í Newcastle kræktu í dýrmætt stig á útivelli í gær þegar þeir gerðu jafntefli, 1:1, við Birmingham í miklum fallslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Lærisveinar Kevins Keegans í Newcastle kræktu í dýrmætt stig á útivelli í gær þegar þeir gerðu jafntefli, 1:1, við Birmingham í miklum fallslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Newcastle hefur ekki unnið leik síðan í desember en komst fjórum stigum frá fallsæti og það var Michael Owen sem skoraði jöfnunarmark liðsins af miklu harðfylgi.

Hrafnhildur Skúladóttir skoraði aðeins eitt mark þegar lið hennar, Hadsten Sports Klub , tapaði fyrir Odense , 29:25, á heimavelli í næst efstu deild danska handknattleiksins á sunnudag. Hadsten Sports Klub er sem fyrr í 12. sæti af 14 liðum þegar tvær umferðir eru eftir.

Guðný Jónsdóttir , sem hefur verið fyrirliði kvennaliðs Fjölnis í knattspyrnu undanfarin ár, er gengin til liðs við Stjörnuna . Guðný var reyndasti leikmaður Grafarvogsliðsins sem kom á óvart í úrvalsdeildinni í fyrra og hélt þar sæti sínu af miklu öryggi. Stjarnan var áður búin að fá annan lykilleikmann Fjölnis, Eddu Maríu Birgisdóttur , í sínar raðir.

Jógvan Martin Olsen , landsliðsþjálfari Færeyja í knattspyrnu, sagði við dagblaðið Sosialurin í gær að sigur Íslands, 3:0, í Kórnum í fyrradag hefði verið mjög sanngjarn. „ Við töpuðum fyrir betra liði en fengu þó sennilega besta færið í öllum leiknum í fyrri hálfleik. Íslendingar höfðu undirtökin í seinni hálfleik og voru greinilega í betri æfingu en við ,“ sagði Jógvan, sem kvaðst ánægður með heildarframmistöðu sinna manna þrátt fyrir tapið.

Helgi Jóhannesson vann nokkuð óvæntan sigur á Magnúsi Inga Helgasyni, 14:21, 21:17, 21:16, í úrslitaleiknum í einliðaleik karla á opna BM Vallármótinu í badminton í KR-húsinu á sunnudag en það var liður í Stjörnumótaröð BSÍ. Magnús Ingi hafði unnið öll mót vetrarins hér á landi. Sara Jónsdóttir vann sitt fjórða mót í röð í einliðaleik kvenna en hún lagði Katrínu Atladóttur í úrslitaleiknum, 18:21, 21:7 og 21:12.

Birkir Már Sævarsson , knattspyrnumaður úr Val , leikur í dag æfingaleik með norska 1. deildarliðinu Bryne gegn Löv-Ham úr sömu deild. Birkir fór til Noregs í gær til æfinga með Bryne.