Eftir Skapta Hallgrímsson
skapti@mbl.is
ÁFENGISSJÚKLINGUM sem eru eldri en 55 ára og drekka daglega hefur fjölgað verulega á síðustu fimm árum hér á landi. Þetta segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir hjá SÁÁ, og hann hefur meiri áhyggjur af elsta aldurshópnum en unglingum ef áfengi verður selt í matvöruverslunum. Hann hefur þó eðlilega áhyggjur af ungu fólki, enda hefur vímuefnanotkun þess aukist gríðarlega á síðustu 10 árum.
Greindarskerðing og minnistap
Drykkjuvandamál fólks í elstu aldursflokkunum eru meiri en margan grunar. „Við sjáum hér, eins og bent hefur verið á annars staðar í Evrópu, að fullorðna fólkið sækir í vaxandi mæli inn á heilbrigðisstofnanir vegna sídrykkju og afleiðinga hennar sem eru fyrst og fremst greindarskerðing og minnistap, og aðrir fylgikvillar frá lifur, brisi, meltingarvegi og vöðvakerfi. Þetta eru gríðarlega mikil heilbrigðisvandamál,“ segir Þórarinn.Álagið á Vogi hefur aldrei verið meira en á fyrstu mánuðum þessa árs og stofnunin hefur raunar ekki undan. „Notkun örvandi vímuefna er gríðarlega mikið vandamál á meðal ungs fólks í dag, það hefur farið vaxandi og er ekki að réna þegar horft er til nokkurra ára,“ sagði Þórarinn í gær. 70% þeirra sem koma á Vog frá tvítugu til þrítugs eru háð örvandi vímuefnum. „10% þeirra eru komin með lifrarbólgu C og 25% þeirra sprauta sig í æð,“ sagði Þórarinn. Í fyrra greindust 42 ný tilfelli lifrarbólgu C á Vogi og tvö ný HIV tilfelli.
Í hnotskurn
» Þórarinn greindi frá því í gær að 5,3% af öllum núlifandi Íslendingum hafa farið í meðferð á Vogi. Sú tala er reyndar frá því í árslok 2006 en hefur líklega ekki breyst mikið. Þá höfðu 7,4% allra núlifandi karla farið í meðferð og 3,1% kvenna.» Frá árinu 1977 til ársloka 2006 höfðu 13.440 karlar farið í meðferð á Vogi og 5.291 kona. Innlagnir voru alls tæplega 54.000 vegna þess að sumir koma nokkrum sinnum.