— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is ÁFENGISSJÚKLINGUM sem eru eldri en 55 ára og drekka daglega hefur fjölgað verulega á síðustu fimm árum hér á landi.

Eftir Skapta Hallgrímsson

skapti@mbl.is

ÁFENGISSJÚKLINGUM sem eru eldri en 55 ára og drekka daglega hefur fjölgað verulega á síðustu fimm árum hér á landi. Þetta segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir hjá SÁÁ, og hann hefur meiri áhyggjur af elsta aldurshópnum en unglingum ef áfengi verður selt í matvöruverslunum. Hann hefur þó eðlilega áhyggjur af ungu fólki, enda hefur vímuefnanotkun þess aukist gríðarlega á síðustu 10 árum.

Greindarskerðing og minnistap

Drykkjuvandamál fólks í elstu aldursflokkunum eru meiri en margan grunar. „Við sjáum hér, eins og bent hefur verið á annars staðar í Evrópu, að fullorðna fólkið sækir í vaxandi mæli inn á heilbrigðisstofnanir vegna sídrykkju og afleiðinga hennar sem eru fyrst og fremst greindarskerðing og minnistap, og aðrir fylgikvillar frá lifur, brisi, meltingarvegi og vöðvakerfi. Þetta eru gríðarlega mikil heilbrigðisvandamál,“ segir Þórarinn.

Álagið á Vogi hefur aldrei verið meira en á fyrstu mánuðum þessa árs og stofnunin hefur raunar ekki undan. „Notkun örvandi vímuefna er gríðarlega mikið vandamál á meðal ungs fólks í dag, það hefur farið vaxandi og er ekki að réna þegar horft er til nokkurra ára,“ sagði Þórarinn í gær. 70% þeirra sem koma á Vog frá tvítugu til þrítugs eru háð örvandi vímuefnum. „10% þeirra eru komin með lifrarbólgu C og 25% þeirra sprauta sig í æð,“ sagði Þórarinn. Í fyrra greindust 42 ný tilfelli lifrarbólgu C á Vogi og tvö ný HIV tilfelli.

Í hnotskurn
» Þórarinn greindi frá því í gær að 5,3% af öllum núlifandi Íslendingum hafa farið í meðferð á Vogi. Sú tala er reyndar frá því í árslok 2006 en hefur líklega ekki breyst mikið. Þá höfðu 7,4% allra núlifandi karla farið í meðferð og 3,1% kvenna.
» Frá árinu 1977 til ársloka 2006 höfðu 13.440 karlar farið í meðferð á Vogi og 5.291 kona. Innlagnir voru alls tæplega 54.000 vegna þess að sumir koma nokkrum sinnum.
| Miðopna

mbl.is Sjónvarp

Eldra fólk drekkur meira daglega