— NordicPhotos/AFP
Eftir Atla Ísleifsson atlii@24stundir.is Lögreglumenn á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo neyddust til að hörfa frá hverfum í borginni Mitrovica þar sem Serbar eru í meirihluta, eftir að sló í brýnu milli lögreglumannanna og serbneskra mótmælenda í gær.

Eftir Atla Ísleifsson

atlii@24stundir.is

Lögreglumenn á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo neyddust til að hörfa frá hverfum í borginni Mitrovica þar sem Serbar eru í meirihluta, eftir að sló í brýnu milli lögreglumannanna og serbneskra mótmælenda í gær. Óeirðirnar hófust eftir að um hundrað lögreglumenn Sameinuðu þjóðanna réðust inn í dómhús Sameinuðu þjóðanna í Mitrovica sem serbneskir mótmælendur höfðu náð á sitt vald fyrir helgi. Rúmlega fimmtíu Serbar voru handteknir í aðgerðinni og blossuðu mikil átök upp í kjölfarið.

Tugir lögreglumanna á vegum Sameinuðu þjóðanna og hermanna NATO særðust í átökum við mótmælendur sem skutu úr byssum og köstuðu steinum og bensínsprengjum. Hermenn NATO beittu táragasi til að dreifa mannfjöldanum. Mörgum hinna handteknu tókst að sleppa eftir að hópur mótmælenda réðst á bílalestina sem átti að flytja þá á brott.

Mestu átök frá sjálfstæði

Hermenn NATO náðu stjórn á mótmælunum um miðjan dag í gær. Átökin eru þau mestu í Kosovo frá því að albanski meirihlutinn lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu í síðasta mánuði. Serbnesk stjórnvöld og Serbar í Kosovo neita að viðurkenna sjálfstæðið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvatti alla íbúa Kosovo til stillingar og sagði talsmaður framkvæmdastjórnarinnar allt ofbeldi vera óviðunandi. „Allir aðilar ættu að vinna að því að koma á fjölþjóðlegu Kosovo, sem byggir á stoðum réttarríkis og lýðræðis.“

NATO líkt við nasista

Boris Tadic Serbíuforseti hvatti einnig til stillingar, en sagði átökin vera afleiðingu þess að alþjóðlegar öryggissveitir hefðu beitt óhóflegu valdi og varaði við að átök kynnu að breiðast út um héraðið.

Tomislav Nikolic, formaður stærsta stjórnmálaflokksins í Serbíu, sagði NATO hegða sér líkt og hersetulið nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá sagði Vojislav Kostunica, starfandi forsætisráðherra Serbíu, að Serbíustjórn hefði tekið upp viðræður við stjórnvöld í Rússlandi um hvernig sé mögulegt að koma í veg fyrir að serbneskir íbúar Kosovo verði beittir ofbeldi.

Tvö ár liðin frá blóðbaði

Íbúar Mitrovica minntust þess í gær að fjögur ár væru liðin frá því að 31 maður lést í mótmælum albanskra aðskilnaðarsinna gegn serbneskum yfirráðum héraðsins í bænum árið 2004.

HVAÐ VANTAR UPP Á?

Í hnotskurn
Íbúar Kosovo eru um 1,9 milljónir talsins. Um 92% þeirra eru af albönsku bergi brotnir, en um 5% Serbar. Um 17 þúsund friðargæsluliðar frá 34 ríkjum eru nú í Kosovo á vegum NATO. Um 10 þúsund manns féllu í átökunum 1998 til 1999 þegar hersveitir Serba reyndu að brjóta albanska meirihlutann í Kosovo á bak aftur.