Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi skrifar grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hún lýsir afstöðu Ísraela til þeirra átaka, sem staðið hafa að undanförnu m.a. á Gazasvæðinu. Sendiherrann segir m.a.

Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels á Íslandi skrifar grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hún lýsir afstöðu Ísraela til þeirra átaka, sem staðið hafa að undanförnu m.a. á Gazasvæðinu.

Sendiherrann segir m.a. í grein sinni:

„Dag eftir dag eru Íslendingar mataðir á fréttum í sjónvarpi eða öðrum fréttastofufréttum um það, sem kallað er „hefndaraðgerðir“ eða „vítahringur ofbeldis“. Þeim eru hins vegar ekki sýndar daglegar eldflaugaárásir á Sderot, Askelon og aðrar byggðir, sem Hamas-liðar eða aðrir hryðjuverkamenn standa fyrir. Þeim eru aðeins sýnd viðbrögð ísraelska hersins við hryðjuverkaárásum, árásir hans á hryðjuverkamennina og aðstöðu þeirra. Það er rangt og villandi að lýsa ástandinu sem „vítahring“ og selja alla undir sömu sök. Þannig eru þó fréttirnar matreiddar í íslenzkum fjölmiðlum, þótt í raun sé um að ræða hryðjuverkaárásir á aðra hönd en tilraunir til að hrinda þeim á hina.“

Og sendiherrann segir ennfremur:

„Ísraelar beina ekki spjótum sínum af ásettu ráði gegn óbreyttum borgurum, skólum, heimilum og sjúkrahúsum. Þeir vilja ekki skaða friðsama Palestínumenn en neyðast til að verjast hryðjuverkamönnum og aðeins þeim.

Ísraelar ráðast ekki gegn skólum, moskum eða sjúkrahúsum, jafnvel þótt hryðjuverkamenn skjóti eldflaugum frá þessum húsum. Útsendarar Hamas eru hins vegar innan um fólkið og því kemur það fyrir, því miður, að óbreyttir borgarar falli í átökum milli Hamas og Ísraela. Hamas notar síðan fréttastofur og fréttaritara til að tryggja, að Íslendingar fái mjög einhliða mynd af ástandinu.“

Auðvitað er það svo, að Ísraelar eiga sinn málstað ekkert síður en Palestínumenn. Þeir geta fært ákveðin rök fyrir sinni háttsemi við þær erfiðu aðstæður, sem til staðar eru á þessum umdeildu svæðum.

En það er eitt sem Ísraelar geta ekki gert. Þeir geta ekki höfðað til fólks með þeim málflutningi að þeir séu minnimáttar í þessum átökum. Þeir geta ekki höfðað til fólks með því, að þeir séu einungis að verja hendur sínar.

Ísrael er eitt öflugasta herveldi í heimi og langöflugasta herveldið í Miðausturlöndum nær. Þeir geta leikið sér að Palestínumönnum eins og köttur að mús og gera.

Þess vegna eiga Ísraelsmenn ekki að reyna að verja stöðu sína og aðgerðir með því að leita eftir samúð fólks.

Sýni þeir hins vegar í verki vilja til þess að hjálpa Palestínumönnum til þess að bjarga sér sjálfir mundu þeir uppskera stuðning umheimsins og þá samúð, sem þeir sækjast eftir.