— 24 stundir/Eggert
Einingahús eru að verða sífellt vinsælli á Íslandi enda tekur yfirleitt styttri tíma að reisa þau en hús sem byggð eru á hefðbundinn hátt. Þessu fylgir minni óvissa í kostnaði og einfaldari byggingarstjórnun.

Eftir Hildu H. Cortez

hilda@24stundir.is

Íslendingar eru farnir að reisa sér einingahús í auknum mæli enda getur slíkt sparað bæði tíma og fyrirhöfn og kjósa margir að panta húsin að utan.

„Við erum að kaupa hús frá Kanada og koma hingað kanadískir smiðir sem munu sjá um að reisa það,“ segir Ásdís Arnalds. „Við fórum eina ferð út til Kanada þar sem við hittum arkitekta hjá fyrirtækinu sem aðstoðuðu okkur við að velja það sem okkur leist best á. Við völdum ákveðið útlit á húsið, glugga, þak og annað slíkt sem þeir eru með staðlað og er þetta allt teiknað upp þannig að maður getur séð hvernig þetta kemur til með að líta út. Eftir að skrifað er undir samninga eru síðan þrír mánuðir þar til smiðirnir koma á staðinn og hefjast handa en það tekur um það bil átta vikur að reisa húsið.“

Hagkvæmari leið

Styttri tíma tekur að reisa einingahús en þegar byggt er á hefðbundinn hátt, skipulag verður auðveldara og færri iðnaðarmenn þarf til að ljúka verkinu.

„Það hentaði okkur betur að fara þessa leið og var ódýrara en að kaupa tilbúið hús, en húsið sem við keyptum er 250 fermetrar allt í allt, ein hæð og ris ásamt 40 fermetra bílskúr. Við nenntum heldur ekki að fara út í miklar byggingarframkvæmdir þar sem við hefðum þurft að gera eitthvað sjálf þannig að þessi leið var hagkvæmust fyrir okkur. Við völdum líka að taka húsið með innréttingum og keyptum bæði eldhús- og baðinnréttingar sem og gólfefni, þannig að það verður tilbúið undir málun hjá okkur eftir þessar átta vikur. Það er ótrúlega þægilegt að fá allt í einum pakka. Smiðirnir koma að utan og smíða timburhús á grunninum en maður þarf sjálfur að útvega menn til þess að grafa og steypa grunninn.“

Sífellt algengara

„Ég held að það sé sífellt að verða algengara að fólk kjósi þessi einingahús. Nú orðið eru mörg fyrirtæki farin að bjóða upp á þessa möguleika bæði íslensk og erlend.

Það sem hefur tafið okkur svona einna helst er að það þarf að klára plötuna fyrst, áður en hægt er að fá lán út á húsið, en það þarf að borga einn þriðja af verðinu þegar skrifað er formlega undir samninginn við kanadíska fyrirtækið. Þannig að við þurftum að klára grunninn alveg áður en við gátum gengið frá pöntuninni úti. Ef við hefðum fengið lán fyrr þá hefðum við getað byrjað og flýtt aðeins fyrir okkur en við munum sem betur fer ekki þurfa að bíða lengi eftir því að húsið rísi þegar þar að kemur.“

Í hnotskurn
Fjöldi hérlendra og erlendra fyrirtækja býður upp á einingahús. Byggingartíminn er mun styttri og allt efni kemur tilsniðið á byggingarstað. Heildarkostnaður við byggingaframkvæmdir er lægri.