Agent Fresco „Þetta er allt svo nýskeð að við höfum ekki ákveðið neitt,“ segir Hrafnkell, trymbill sveitarinnar. Nóg sé þó af hugmyndunum.
Agent Fresco „Þetta er allt svo nýskeð að við höfum ekki ákveðið neitt,“ segir Hrafnkell, trymbill sveitarinnar. Nóg sé þó af hugmyndunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is ÞAÐ má segja að sigurvegari Músíktilrauna þetta árið hafi farið nokkuð nákvæmlega eftir heiti keppninnar, því að um miklar „músíktilraunir“ var að ræða.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

ÞAÐ má segja að sigurvegari Músíktilrauna þetta árið hafi farið nokkuð nákvæmlega eftir heiti keppninnar, því að um miklar „músíktilraunir“ var að ræða. Framsækið rokk, þar sem myljandi harðkjarni var í einni sæng með melódískum djassi – og það í einu og sama laginu. Meðlimir samþættu glæsilega hljóðfæralega kunnáttu og ólgandi ástríðu fyrir sköpunargyðjunni og söngvarinn setti glæstan topp á með andríkum söng og einkar lifandi og skemmtilegri sviðsframkomu.

Morgunblaðið ræddi við Hrafnkel Örn Guðjónsson, trymbil sveitarinnar, en aðrir meðlimir eru þeir Þórarinn Guðnason gítarleikari, Borgþór Jónsson kontrabassaleikari og Arnór Dan Arnarson söngvari. Allir eru þeir 18 ára nema Arnór, sem er 22 ára.

Framsækið og frumlegt

„Eins klisjukennt og það hljómar þá áttum við alls ekki von á þessu,“ segir Hrafnkell. „Að komast upp úr undanúrslitum var sigur í sjálfu sér. Við áttum engan veginn von á því að svona tónlist ætti upp á pallborðið.“ Hrafnkell segir að sveitin hafi skráð sig til keppni aðallega vegna þess að það sé svo gaman í Músíktilraunum.

„Það er bara svo mikil stemning í kringum keppnina og þarna er tækifæri til að spila á alvörugræjur. Ég og Borgþór tókum þátt árið 2005, ég með The Dyers og hann með Hello Norbert og okkur þótti alveg svakalega gaman. Við erum allir í FÍH núna og höfum verið að leika okkur saman, æfa upp einhverja parta og kafla. Arnór gekk svo til liðs við okkur fyrir tveimur vikum og þá fórum við að semja lög á fullu. Hann er í klassísku söngnámi en við hinir erum í djassrokkinu.“

Aðspurður kannast Hrafnkell fullvel við hina oft neikvæðu ímynd sem FÍH steríótýpan hefur; að þar snúist allt um hljóðfæralega færni en innblástur til sköpunar skipti minna máli.

Troðnir af hugmyndum

„Jú jú, og þetta vildum við brjóta upp,“ segir hann sposkur. „Í FÍH er alls kyns fólk en persónulega höfðum við lítinn áhuga á skalaleikfimi heldur langaði okkur einmitt til að nýta það sem við höfum lært til að búa til og móta eitthvað framsækið. Af áhrifavöldum nefnir Hrafnkell gamlar proggsveitir eins og King Crimson og Yes.

„Mike Patton er þá mikil hetja og hljómsveitir sem hafa verið að fikta við takttegundir, eins og The Dillinger Escape Plan og Meshuggah eru í góðu bókinni. Alls kyns djass er þá líka á borðinu og svo er meistari Zappa mikill aufúsugestur.“

Hrafnkell segir að sigurinn hafi virkað sem mikil hvatning og þeir félagar séu nú að plotta næstu skref.

„Þetta er allt svo nýskeð að við höfum ekki ákveðið neitt. En það er meiriháttar að geta tekið upp í Sundlauginni og víst að hausinn á okkur er troðfullur af hugmyndum.“