Rúnar Kristjánsson | 17. mars 2008 Umgengnin við lífið Undanfarin ár hafa menn verið að vakna verulega til meiri vitundar um þörfina á því að heiðra náttúruna og hlynna að henni.

Rúnar Kristjánsson | 17. mars 2008

Umgengnin við lífið

Undanfarin ár hafa menn verið að vakna verulega til meiri vitundar um þörfina á því að heiðra náttúruna og hlynna að henni. Áratugabarátta hugsjónaríkra náttúruunnenda hefur þannig skilað sér inn í þungavigtarumræður nútímans og er það vel. Þessi framvinda hefur leitt til þess að stóriðjusinnar, sem yfirleitt tilheyra hægri kanti stjórnmálanna, hafa reynt að koma sér upp hugtaki sem getur gengið í fólk og innifalið slétta og jákvæða mynd af þeim sem náttúruverndarsinnuðum atvinnuvæðingarmönnum. Menn hafa dottið niður á hugtakið hægri grænir, en það hefur þótt hafa ýmsa ókosti. Fyrst og fremst virkar það eins og eftiröpun hugtaksins vinstri grænir og getur líka vakið ýmsar óþægilegar spurningar á grundvelli sögulegra staðreynda.

En góð umgengni um náttúruna er auðvitað aðeins hluti af þeirri mynd sem allir ættu að geta verið sammála um að ætti að hafa forgang í heiminum – ef gengið væri út frá eðlilegum forsendum. Óspillt náttúra er eitt af því sem er manninum nauðsyn til að geta lifað og tekið réttum framförum til þroska, en grundvallaratriðið er þó að við lærum að umgangast lífið sjálft með lotningu og virðingu. Þegar við gerum okkur grein fyrir að við erum þiggjendur að lífi hljótum við jafnframt að skilja að sú gjöf gerir þá kröfu til okkar, að við virðum líf annarra og byggjum þjóðfélagið upp á sammannlegum forsendum. Þá verður líka hugsunin um að varðveita náttúruna sjálfsögð því þá munu heilbrigðir lífshættir eðlilega kalla á þá umgerð sem hæfir.

En umgengnin við lífið er ekki góð og hefur versnað til muna á síðustu árum. Náungakærleikurinn hefur kólnað og margir virðast orðnir eyland í sínum hugarheimi. Það er hugsað um að taka en ekki að gefa. ...

Umgengnin við annarra líf skiptir slíka sálarleysingja því litlu máli.

En það eru viðhorfin gagnvart öðrum sem segja best til um það hverskonar manneskjur við erum. Það á að vera okkur eðlilegt og skylt að finna til með hverjum þeim sem sorgin nístir og særðir eru. Okkur ber að sýna samferðamönnum í lífinu heilbrigða samkennd. ...

undirborginni.blog.is