Gissur Sprækur í bítið.
Gissur Sprækur í bítið.
Tónlistin á Bylgjunni höfðar ekki til mín. Þar er alltaf logn. Talmálið er hins vegar betra, einkum dægurmálaþátturinn Ísland í bítið sem verður oftar en ekki fyrir valinu í bílnum á morgnana á leið til vinnu.

Tónlistin á Bylgjunni höfðar ekki til mín. Þar er alltaf logn. Talmálið er hins vegar betra, einkum dægurmálaþátturinn Ísland í bítið sem verður oftar en ekki fyrir valinu í bílnum á morgnana á leið til vinnu.

Stjórnendurnir, Heimir og Kolla, eru hreint prýðilegt útvarpsfólk, látlaus, mátulega hress og nösk á áhugaverða viðmælendur. Helsti styrkur þáttarins er samt hinn gamalreyndi fréttamaður Gissur Sigurðsson sem er vanur að koma inn til skrafs og ráðagerða um það leyti sem ég legg í'ann á morgnana. Enginn útvarpsfréttamaður kemst með tærnar þar sem Gissur hefur hælana. Hann er ekki bara með puttann á púlsinum heldur er frásagnargleðin líka með þeim hætti að hlustendur geta ekki annað en hrifist með. Sérstaklega er Gissur í essinu sínu þegar hann flytur fréttir af seinheppnum innbrotsþjófum og glæpamönnum en hann hefur einstakt nef fyrir fréttum af því tagi. Það er gys í lagi og gullkornin falla hvert af öðru af vörum Gissurar.

Í heimi þar sem alltof margir rembast daginn út og inn við að vera fyndnir eru menn á borð við Gissur ómetanlegir. Menn sem eru skemmtilegir frá skaparans hendi og lausir við tilgerð.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson