Eftir Elías Jón Guðjónsson elias@24stundir.is „Almenningur lét allavega ekki narra sig til að kaupa í Skiptum á allt of háu verði. Ég segi bara húrra fyrir almenningi,“ segir Agnes Bragadóttir, talsmaður Almennings efh.

Eftir Elías Jón Guðjónsson

elias@24stundir.is

„Almenningur lét allavega ekki narra sig til að kaupa í Skiptum á allt of háu verði. Ég segi bara húrra fyrir almenningi,“ segir Agnes Bragadóttir, talsmaður Almennings efh., um niðurstöðu hlutafjárútboðs Skipta, móðurfélags Símans, á 30 prósenta hlut í fyrirtækinu. Almenningur ehf. var félag mörg þúsund einstaklinga sem átti þátt í tilboði í Símann sumarið 2005 þegar hann var einkavæddur en átti ekki hæsta tilboð. Sú kvöð fylgdi sölunni að ekki minna en 30 prósent af heildarhlutfé yrðu boðin almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007. Það hlutafjárútboð fór fram dagana 10. til 13. mars, en aðeins 7,4 prósent seldust.

Vildu setja strax á markað

„Við vildum að Síminn færi strax á árinu 2005 á markað og almenningur fengi að kaupa 30 prósentin á sama verði og við keyptum á,“ segir Agnes og bætir við: „Hugmyndin var að tryggja að almenningur fengi að njóta hagnaðarins frá upphafi ef mikill hagnaður yrði en á meðan var skilyrðið frá einkavæðingarnefnd að félagið færi á markað fyrir árslok 2007. Það var ein af þeim kvöðum sem hæstbjóðendur urðu að undirgangast þegar þeir fengu fyrirtækið á 66 milljarða, við buðum 60.“ Agnes segir þennan 30 prósenta hlut nú hafa verið boðinn almenningi við verstu mögulegu kringumstæður þegar mikill órói er á mörkuðum hérlendis sem erlendis.

Of hátt verð

„Ég tek ofan fyrir almenningi fyrir að hafa ekki látið plata sig til að kaupa hlut í Skiptum á allt of háu verði,“ segir Agnes og bendir á samburð Morgunblaðsins á svipuðum fyrirtækjum annars staðar í Evrópu sem sýni að fyrirtækið hafi verið sett of dýrt á markað. „Það hefði átt að fá óháða aðila til að meta hvað fyrirtækið er mikils virði og hvað er eðlilegt gengi á fyrirtækinu. “

Gekk ekki upp fyrir almenning

„Það er alveg augljóst að þetta einkavæðingarferli gekk ekki upp hvað varðar þátt almennings,“ segir Agnes. „Þessi árangur, að vera búinn að selja 7 prósent og aðallega til fjárfesta en ekki til almennings, hann er auðvitað ekkert til þess að hrópa húrra yfir. Almenningur er ekki enn búinn að fá Símann og sem betur fer ekki á þessu verði.“
Í hnotskurn
Þegar Síminn var seldur árið 2005 fylgdi sú kvöð að 30 prósent af heildarhlutafé yrðu boðin almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007. Hlutafjárútboðið fór fram dagana 10. til 13. mars. eftir að þriggja mánaða frestur var veittur. Aðeins seldust 7,4 prósent.