Í sjóræningjaleikriti Bjarni Hauksson, Sigríður Harpa Hauksdóttir, Gunnar Þórarinsson og Silja Rúnarsdóttir í hlutverkum sínum í leikriti Jónasar Reynis Helgasonar, en það var samið sérstaklega fyrir árshátíð skólans.
Í sjóræningjaleikriti Bjarni Hauksson, Sigríður Harpa Hauksdóttir, Gunnar Þórarinsson og Silja Rúnarsdóttir í hlutverkum sínum í leikriti Jónasar Reynis Helgasonar, en það var samið sérstaklega fyrir árshátíð skólans. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Eftir Atli Vigfússon Þingeyjarsveit | Mikið var um dýrðir í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði um helgina er nemendur héldu árshátíð sína fyrir troðfullu húsi.

Eftir Atli Vigfússon

Þingeyjarsveit | Mikið var um dýrðir í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði um helgina er nemendur héldu árshátíð sína fyrir troðfullu húsi. Að venju mættu íbúar sveitarinnar til að sjá uppskeruhátíð nemenda í leiklistinni en ekkert var til sparað við að gera hátíðina sem best úr garði eins og venja er til.

Frumsamið leikrit

Nemendur í 1.-5. bekk sýndu valin atriði úr leikritinu „Þið munið hann Jörund“ eftir Jónas Árnason og nemendur 6.-10. bekkjar sýndu nýtt frumsamið leikrit eftir Jónas Reyni Helgason kennara við skólann sem nefnist „Sjóræningjar á Ljósavatni.“ Hann hefur fram að þessu ekki verið þekktur sem leikritaskáld en réðst fram á ritvöllinn þegar kom að því að undirbúa árshátíðina þar sem fólki fannst vanta eitthvað nýtt og frumlegt.

Leikur yngri nemendanna vakti mikla athygli vegna þess hve vel þau skiluðu texta út yfir salinn og þurftu sum þeirra að fara með töluvert langt mál sem þau höfðu greinilega lært vel og söngur þeirra var mjög líflegur. Beðið hafði verið með nokkurri eftirvæntingu eftir sjóræningjaleikriti Jónasar Reynis þar sem það gerist í heimabyggð og mörg kunnugleg örnefni komu fyrir sem fólk þekkti úr nágrenni skólans. Þar komu á svið íbúar þorpsins Sandvíkur sem er við Ljósavatn og sjóræningjar sem lögðu að landi. Upphófst mikið drama sem nemendur túlkuðu af miklum krafti bæði með leik og söng.

Alls voru það 24 nemendur sem komu fram í verkinu þ.e. tólf þorpsbúar, sex ljósálfar og sex sjóræningjar. Margir sungu einsöng en frumsamda söngtexta gerðu þau Jónas Reynir, Aníta Þórarinsdóttir og Þorgeir Atli Hávarsson sem er nemandi við skólann.

Að sögn Jónasar Reynis var mikil vinna lögð í búninga og stóðu æfingar yfir í nær þrjár vikur enda árangurinn því betri sem vinnan er meiri. Hann segir að reglubundnar menningarstundir í skólanum séu til mikils gagns fyrir börnin þar sem þau læri að koma fram og tjái sig í ræðu og riti.

Að leikritunum loknum kom svo skólastjórinn Ólafur Arngrímsson fram á sviðið og þakkaði höfundunum, leikstjórunum, nemendum og starfsfólki fyrir skemmtunina auk þess sem hann þakkaði tónlistarstjóranum Jaan Alavere frábært starf. Allt þetta fólk hlaut mikið klapp í salnum og hófst svo kaffiveisla, síðan skemmtiatriði starfsfólks en í lokin var dansað fram yfir miðnætti.

Í hnotskurn
» Í Stórutjarnaskóla eru 43 nemendur úr Bárðardal, Fnjóskadal, Kinn og Ljósavatnsskarði
» Grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli lúta einni yfirstjórn og hefur skólastarf þetta vakið töluverða athygli.