Trimmari Þórður B. Þórðarson hljóp og gekk í vinnuna hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar öll þau ár sem hann hefur verið búsettur í Njarðvík, samtals 31. Hreyfingin er hans lífsstíll.
Trimmari Þórður B. Þórðarson hljóp og gekk í vinnuna hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar öll þau ár sem hann hefur verið búsettur í Njarðvík, samtals 31. Hreyfingin er hans lífsstíll. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Eftir Svanhildur Eiríksdóttir Reykjanesbær | „Ég byrjaði að hreyfa mig þegar ég hætti að reykja 26 ára gamall. Ég vildi bæði bæta heilsu mína og nota hreyfinguna sem stuðning við að halda mig frá tóbakinu,“ sagði Þórður B.

Eftir Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbær | „Ég byrjaði að hreyfa mig þegar ég hætti að reykja 26 ára gamall. Ég vildi bæði bæta heilsu mína og nota hreyfinguna sem stuðning við að halda mig frá tóbakinu,“ sagði Þórður B. Þórðarson göngugarpur og trimmari í samtali við Morgunblaðið. Hann hætti á dögunum í Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli eftir 36 ára starf. Í 31 ár kom Þórður sér til og frá vinnu á tveimur jafnfljótum sama hvernig viðraði. Þó síðasta vaktin sé að baki ætlar hann ekki að leggjast með tærnar upp í loft.

Þeir eru ófáir Njarðvíkingarnir sem hafa séð Þórð B. Þórðarson skokka eða labba upp Grænásbrekkunna á leið á vakt hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar. Hreyfingin er hans lífsstíll og upphafið má rekja 41 ára aftur í tímann. Þá var Þórður stýrimaður á skipum Eimskipafélags Íslands og ákvað að hætta að reykja. „Í kjölfarið byrjaði ég að labba. Síðan heyrði ég um æfingakerfi Charles Atlas, Atlaskerfið svokallaða og keypti bókina til að fara eftir. Einn af skipsfélögum mínum kenndi mér að sippa og þetta stundaði ég í litlum klefa um borð í skipunum. Við sigldum í kringum landið og í hverri höfn notaði ég tækifærið og gekk upp á næsta fjall. Ég stunda enn fjallgöngur,“ sagði Þórður í samtali við blaðamann.

Gönguferðirnar eru orðnar margar sem og áfangastaðirnir og gildir einu hvort um skipulagðar gönguferðir er að ræða eða ekki. Sömu sögu er að segja um ferðafélagana, Þórði finnst lítið mál að vera einn á ferðalögum en segist þó ekki vilja vera án félagsskaparins í líkamsræktarstöðinni Perlunni þar sem hann lyftir reglulega eða sundlauginni í Njarðvík þar sem margir sprettirnir eru teknir með sundfélögunum. „Það er félagsskapurinn sem gerir þetta svo skemmtilegt. Það myndast kjarni bæði í sundlaugunum og líkamsræktarstöðvunum og þessi félagsskapur er mikils virði.“

Margar háðsglósur fallið

Þórður sagðist hafa lagt áherslu á að vera góð fyrirmynd. Þórður var m.a. fyrsti Íslendingurinn til að gefa blóð eitt hundrað sinnum. Það var í marsmánuði 1992 og þegar Þórður hætti að gefa blóð voru gjafirnar orðnar 142. Í Blóðbankanum er alltaf góð ávöxtun og blaðamaður nefndi við Þórð að nú væri lag að feta í fótspor hans og spara ökutækin á tímum síhækkandi bensín- og olíuverðs. Að maður tali nú ekki um hversu mannbætandi hreyfingin er. Þórður sagði að mikið væri búið að hlæja að sér í gegnum tíðina og margar háðsglósurnar hefðu fallið. Hann hefði hins vegar ekki látið það hafa áhrif á sig og bendir á bikar sem féll honum í skaut á Töðugjöldum Ungmennafélags Njarðvíkur árið 1989. Á skildi hans stendur „Trimmari ársins“. „Það er einstaka sinnum sem þeir verðlauna trimmara ársins og þetta árið fékk ég bikarinn. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt,“ sagði Þórður sem trimmaði til og frá vinnu allt til ársins 2000 er hann þurfti að fara í liðþófaaðgerð. Eftir það hefur hann látið sér nægja að ganga og ekki bara til og frá vinnu heldur ekki síður upp á hálendinu eða í styttri gönguferðum víðsvegar um landið. Skipti þá engu þótt löng sólarhringsvakt hjá slökkviliðinu væri að baki. „Ég hafði alltaf þrek til að hlaupa eða ganga í lok vaktar. Ég var hins vegar alltaf svo hress þegar ég kom heim að ég gat ekki hugsað mér að fara í rúmið að sofa. Ég tók því til við að lesa blöðin og fór svo gjarnan í heimilisstörfin því konan vann langan vinnudag.“

Erfitt að breyta yfir í íslenskt málumhverfi

Síðasti dagurinn í vinnunni var eftirminnilegur. Eftir að hafa verið leystur út með góðum gjöfum gengu vinnufélagarnir með honum niður í Grænáshlið. Þar tók fjölskyldan á móti honum og labbaði með honum alla leiðina heim. „Ég vissi ekkert um þetta en vinnufélagarnir og fjölskyldan höfðu talað sig saman. Mér þótti mjög vænt um þetta.“

Eiginkonan, Helga Magnúsdóttir kennari, sagði blaðamanni að í tilefni dagsins hefði heimilið verið skreytt, íslenski fáninn dreginn að húni og kræsingar beðið Þórðar. Þórður sagði að Slökkvilið Keflavíkurflugvallar hefði verið góður vinnustaður. Hann hefði haft meiri áhuga á að vera nærri fjölskyldunni en að vinna á sjónum. Hann hefði því tekið slökkviliðsstarfinu þegar honum bauðst það árið 1972. Honum hefði líkað starfið mjög vel og eignast þar stóran hóp ágætra vinnufélaga. Á þeim 36 árum sem liðin væru síðan þá hefðu slökkviliðinu fallið mörg verðlaun í skaut fyrir framúrskarandi eldvarnir og slökkviliðsmenn farið í gegnum ýmsar breytingar, þó engar eins og þær sem urðu eftir brotthvarf hersins að sögn Þórðar.

„Þetta var bandarískt samfélag og málumhverfið því bandarískt. Það reyndist því erfiðleikum bundið að laga ýmislegt í starfseminni að íslensku máli eftir að herinn fór. Við fórum inn á hvert heimili og á hvern vinnustað einu sinni á ári með fræðslu um eldvarnir,“ sagði Þórður sem alltaf hefur lagt mikla alúð við að tala gott íslenskt mál og var einn af hvatamönnum um að málhreinsunarfélag var stofnað á vinnustaðnum. Framundan bíður Þórðar skemmtilegur tími. Nýtt barnabarn var að líta dagsins ljós og nú gefst tækifæri til að sinna áhugamálunum. „Við hjónin eigum sumarbústað í Borgarfirði og njótum þess að vera þar, m.a. við trjárækt og útiveru. Ég sé fyrir mér að þeim ferðum muni fjölga og að við munum hafa meiri tíma til að ferðast. Svo hefur ýmislegt hér heima við setið á hakanum.“ Með þessum orðum er Þórður rokinn í ræktina enda engin ástæða til að slá slöku við þótt vinnan krefji hann ekki lengur um góða formið.

Í hnotskurn
» Þórður B. Þórðarson er fyrsti Íslendingurinn til að gefa blóð 100 sinnum.
» Hreyfing varð að lífsstíl Þórðar þegar hann hætti að reykja fyrir 41 ári.
» Nú þegar Þórður hefur unnið sína síðustu vakt hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar hefur hann meiri tíma fyrir göngur, ferðalög og fjölskylduna.