Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

„Mér gekk vel á þessu móti og nú taka við harðar æfingar hér heima og ég hvíli mig ekkert fyrr en ég næ þessum metra sem vantar,“ segir sleggjukastarinn Bergur Ingi Pétursson, en hann er nýkominn heim frá móti í Króatíu þar sem hann setti nýtt glæsilegt Íslandsmet. Hann vantar nú aðeins einn metra til að tryggja sér farseðil með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikana í Kína í ágúst.

Bergur Ingi hefur um nokkurn tíma verið fremstur meðal jafningja í kringlukasti hérlendis og tekið stórstígum framförum í greininni. Eigi er langt síðan hann kastaði fyrstur Íslendinga yfir 70 metra en fyrra Íslandsmet sem hann átti sjálfur var 70,30 metrar og bætti hann met sitt í Króatíu um litla 2,48 metra og kastaði 73 metra slétta. Dugði sá árangur til að ná níunda sæti á umræddu móti.

Bergur þarf að kasta 74 metra til að ná B-lágmarki á Ólympíuleikana í sumar og þangað ætlar hann sér að komast með góðu eða illu. Þá skiptir sköpum að hann hefur fengið styrk frá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu til æfinga og getur leyft sér að æfa erlendis við toppaðstæður fram á sumar. „Það verður öllu til tjaldað enda verður það ekki lítið svekkelsi að komast ekki á Ólympíuleikana eftir að vera svona nálægt því. En ég er bjartsýnn og framundan eru tvennar æfingabúðir í Portúgal og síðar í Finnlandi í nokkrar vikur og enn er nægur tími til að ná þessu lágmarki og vonandi gott betur en það. Nú liggur fyrir að finna fyrir mig mót til að taka þátt í og enn er tíminn nægur. Ég skal komast til Kína.“

Í hnotskurn
Bergur Ingi er einn af fimm frjálsíþróttamönnum sem raunhæfa möguleika eiga að komast á Ólympíuleikana þetta árið.