Í LEIÐARA Morgunblaðsins 16.

Í LEIÐARA Morgunblaðsins 16. mars 2008 segir að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi nú tekið tvær lykilákvarðanir; í fyrsta lagi með því að ráða nýjan ráðuneytisstjóra heilbrigðismála og í öðru lagi með því að gera samkomulag við tvo af æðstu stjórnendum Landspítala um starfslok þeirra. En það furðar leiðarahöfund að ekki hafi samtímis verið ráðinn nýr framtíðarstjórnandi sjúkrahússins, þótt höfundurinn álykti réttilega að fyrir því hljóti að vera rökstuddar ástæður sem ráðherrann eigi eftir að skýra.

Landspítali er flóknasta lækningastofnun Íslands. Á spítala eiga fagmenn og læknisfræðileg sjónarmið að ráða för. Fráfarandi forstjóri Landspítala og samverkamenn hans komu á stjórnkerfi á Landspítala sem var hvorki faglegt né löglegt. Hann réð um 30 af 35 æðstu stjórnendum, m.a. svonefnda sviðsstjóra, án auglýsingar. Hann framseldi ákvörðunarvald lögbundinna læknisfræðilegra stjórnenda (yfirlækna sérgreina, t.d. yfirmanna heilaskurðlækninga, hjartalækninga, blóðbankans o.s.frv.) til sviðsstjóranna. Hann takmarkaði því áhrif réttra faglegra yfirmanna lækninga á sjúkrahúsinu. Forstjórinn og ráðuneytisstjórinn skelltu skollaeyrum við málefnalegum kvörtunum einstakra yfirlækna, hóps yfirlækna og læknaráðsins um úrbætur. Þeir stungu kvörtunum undir stól. Jafnvel eftir að umboðsmaður Alþingis hafði úrskurðað þær réttmætar í öllum aðalatriðum og Alþingi hafði tekið undir álit umboðsmanns við setningu nýrra heilbrigðislaga. Ráðherrar Framsóknarflokksins studdu embættismennina í athöfnum sínum og því var sjúkrahúsinu stjórnað af ólöglegri og ófaglegri klíkustjórn frá sameiningu allt til dagsins í dag. Um sovéskt kerfi gat ekki orðið sátt.

Guðlaugur Þór Þórðarson er röskur maður, sem hóf vorhreingerningar strax sumarið 2007. Allar ástæður eru til þess að vænta, að undir stjórn hans komist á lögleg, fagleg og dreifstýrð stjórn á sjúkrahúsinu þar sem réttir faglegir yfirmenn fá þau áhrif og ákvörðunarvald, sem þeim ber. Það þjónar hagsmunum sjúklinga og landsmanna best. Liður í því er vandasöm fagleg leit að góðum leiðtogum fyrir stofnunina. Menn þurfa að vita að starfið sé laust til umsóknar. Enginn vissi að störf 30 æðstu yfirmanna væru laus til umsóknar á stjórnartíma fráfarandi forstjóra, sem handpikkaði í störfin, en slíkt er óheimilt á opinberum stofnunum til lengri tíma en tveggja ára. Lögum samkvæmt krefst ráðning stjórnenda auglýsingar svo ráðherra geti valið úr hópi hæfra umsækjenda. En eftir vetur kemur vor og nú er undir stjórn heilbrigðisráðherra komið að vorleysingum og bjartari dögum á Landspítala.

Höfundur er yfirlæknir blóðmeinafræðideildar, varaformaður læknaráðs Landspítala og dósent við læknadeild Háskóla Íslands.