Blúshátíð í Reykjavík hefst í dag, en hátíðin fagnar nú fimm ára afmæli sínu.

Blúshátíð í Reykjavík hefst í dag, en hátíðin fagnar nú fimm ára afmæli sínu. Opnunarhátíð verður á Hilton Reykjavík Nordica klukkan 17 og verður þá meðal annars tilkynnt hver hefur orðið fyrir valinu sem heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur í ár, en almenningur og félagar í Blúsfélaginu hafa á undanförnum vikum sent inn tillögur um hver skuli hljóta útnefningu.

Blúshátíðin stendur til 22. mars. Tónleikar verða haldnir á Hilton Reykjavík Nordica hóteli þriðjudags, miðvikudags og fimmtudagskvöld kl. 20 og sálmatónleikar í Fríkirkjunni í Reykjavík að kvöldi föstudagsins langa.

Meðal þeirra sem spila eru Magic Slim and the Teardrops frá Chicago, Margrét Guðrúnardóttir og bandið hans pabba, Deitra Farr, Blúsmenn Andreu, Maggi Eiríks, Borgardætur og ýmsir fleiri. Nánari upplýsingar og dagskrá hátíðarinnar má sjá á vefsíðunni blues.is.