Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson svarar Stefáni Thorstensen: "Stefán sleppir að geta þess að í grein minni sagði ég að „nógu slæm“ væri hugmynd Landsvirkjunar um Skaftárveitu. Hvenær varð „nógu slæmt“ gott?"
STEFÁN Thorstensen tekur sér það fyrir hendur í Morgunblaðsgrein að gefa í skyn að ég hafi þjónað Landsvirkjun með því að segja að aðrar hugmyndir en hugmyndir hennar um virkjun árinnar séu svo slæmar að ekki taki því að skoða þær. Í tilvitnun í grein mína sleppir hann að geta þess að áður en ég rökstyð það í grein minni hvers vegna aðrar hugmyndir séu verri, segi ég berum orðum, eins og hver maður getur séð sem les þá grein, að „nógu slæm“ sé sú hugmynd Landsvirkjunar fyrir þótt ekki sé nú farið út í enn verri útfærslu. Nú spyr ég Stefán: Síðan hvenær varð „nógu slæmt“ gott? Í meira en áratug fjallaði ég oft um hugmyndir um virkjun Skaftár í sjónvarpsfréttum og sjónvarpsþáttum með meiri og ýtarlegri myndbirtingum en annars staðar hefur verið að fá. Eftir að ég hætti sem fréttamaður hjá Sjónvarpinu hefur eindregin andstaða mín við þessi áform legið ljós fyrir. Það er ómálefnalegt hjá Stefáni þegar hann vitnar í grein mína að sleppa úr tilvitnuninni þeirri setningu sem lýsir afstöðu minni og reyna síðan með útúrsnúningi að gera mér upp aðra skoðun. Spurning Stefáns í upphafi greinar hans er fráleit og til að taka af allan vafa skal ég nálgast þetta svona: Jafnvel Landsvirkjun, sem farið hefur fremst allra við að koma Skaftárvirkjun til leiðar með einhverjum verstu umhverfisspjöllum sem möguleg eru hér á landi, hefur þó ekki látið sér detta í hug hugmyndir í ætt við þær sem Stefán Thorstensen boðar.

Höfundur er formaður Íslandshreyfingarinnar – lifandi lands.

Höf.: Ómar Ragnarsson svarar Stefáni Thorstensen