Gylfi Arnbjörnsson gylfi@asi.is
Gylfi Arnbjörnsson gylfi@asi.is
Árið 2003 ákváðu alþingismenn, að tillögu þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að auka verulega þegar ríkuleg lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra.

Árið 2003 ákváðu alþingismenn, að tillögu þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að auka verulega þegar ríkuleg lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra. Samhliða þessum breytingum voru eiginlegir lífeyrissjóðir alþingismanna og ráðherra aflagðir og eftirlaunaskuldbindingar vegna þeirra færðar yfir á ríkissjóð. Mikil óánægjualda reis vegna þessarar ákvörðunar Alþingis, enda aðgerðin með öllu siðlaus. Í skoðanakönnun í janúar 2004 lýstu tæplega 80 prósent aðspurðra sig óánægð með þessi lög. Á útifundi var þess krafist að þingmenn og ráðherrar nytu sömu lífeyriskjara og aðrir landsmenn. Ekki væri með neinum hætti hægt að sættast á að þeir sem þessum trúnaðarstörfum gegni eigi að búa að öðrum og langtum betri lífeyris- eða eftirlaunaréttindum en allur þorri landsmanna.

Þegar þjóðkjörnir einstaklingar treysta sér ekki til þess að deila kjörum með þjóð sinni er illt í efni. Þingmenn og ráðherrar hafa síðan verið mjög uppteknir af því að upplýsa landsmenn að þessi umframréttindi séu stjórnarskrárvarin, en svo er ekki m.v. dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum.

Þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi á sínum tíma var þeirri skyldu að kostnaðarmeta frumvörp ekki fylgt eftir, en málið var lagt fram með tilbrigðum, en síðar kom í ljós að kostnaður ríkisins nam hundruðum milljóna króna. Nú liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til þingsályktunartillögu Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar í Reykjavík. Samkvæmt þessari tillögu yrðu lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra þau sömu og annarra starfsmanna ríkisins. Það verður auðvitað spennandi að sjá hvernig alþingismenn taka á þessu máli, einkum þingmenn Samfylkingarinnar, en í aðdraganda síðustu kosninga taldi formaðurinn þetta vera eitt af þremur mikilvægustu málum sem flokkurinn þyrfti að fylgja eftir kæmist hann í ríkisstjórn.

Höfundur er framkvæmdastjóri ASÍ