— Morgunblaðið/Árni Sæberg
„ÞETTA er búið að standa yfir lengi. Ég er tíu ára gamall þegar ég læri að spila á orgel. Þá voru fyrstu lögin sem ég æfði sálmalögin. Svo var þetta sungið á heimilinu.

„ÞETTA er búið að standa yfir lengi. Ég er tíu ára gamall þegar ég læri að spila á orgel. Þá voru fyrstu lögin sem ég æfði sálmalögin. Svo var þetta sungið á heimilinu. Nema hvað það kom strax fram hvað það er erfitt að syngja texta Hallgríms við þessa sálma sem eru notaðir í sálmabókinni. Það þurfti að gera breytingar við hvert einasta vers. Hann er með svo breytilegar áherslur í textanum. Þá vaknaði þessi hugmynd hjá mér að einhvern tímann þyrfti maður að búa til lög við þetta,“ segir Jón Ásgeirsson tónskáld um tildrög þess að hann samdi lög við Passíusálmana, alls fimmtíu erindi, og efndi þar með sjötíu ára gamalt heit sitt.

„Núna í vetur þegar ég var að ganga frá óperunni Möttulssögu þá hvíldi ég mig með því að vera að fikta við þessa sálma. Svo þegar ég kláraði óperuna átti ég nokkra sálma eftir en þetta er búið að taka tvö ár. Ég ætla að gefa Hallgrímskirkju þetta til heiðurs Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi. Hallgrímskirkjukór ætlar að syngja einn sálm á föstudaginn langa. Þá les kórinn upp alla sálmana og byrjar á því að syngja fyrsta sálminn, Upp, upp mín sál, við mitt lag.“