„Þetta er mjög alvarlegt,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), um þá miklu hækkun sem varð á bensínverði hér á landi í gær.

„Þetta er mjög alvarlegt,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), um þá miklu hækkun sem varð á bensínverði hér á landi í gær. „Verðið hefur hækkað óhemjumikið á skömmum tíma, og sér ekki fyrir endanum á hækkununum núna með þróun heimsmarkaðsverðs annars vegar og stiglækkandi gengi krónu hins vegar. Sögulega er bensínverð yfirleitt hæst yfir sumarið, og sá tími er ekki enn genginn í garð.“

Eftir gærdaginn stóð lítrinn af bensíni í 147,90 krónum hjá Skeljungi, Olís og N1, og er það sögulegt hámark. Lítrinn af dísilolíu er enn dýrari, en eftir gærdaginn kostar hann 157,90 krónur. Segjast olíufélögin vera að bregðast við lækkandi gengi íslensku krónunnar, en gengisvístalan fór í methæðir í gær sem þýðir að krónan hafi aldrei verið veikari.

„Við ítrekum enn sem fyrr að það hlýtur að vera kominn tími til að fulltrúar stjórnvalda komi fram með einhverjar hugmyndir, eða segi a.m.k. af eða á um hvort þau séu tilbúin til að koma til móts við fólkið í landinu og lækka álögur á eldsneyti,“ segir Runóflur.

hlynur@24stundir.is