Vændiskonan Ashley Alexandra Dupré hefur slegið í gegn í kjölfar hneykslismáls sem kostaði ríkisstjóra New York starfið. Tónlist Dupré hefur á um viku aflað henni milljóna króna.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir

Um árabil hafði Ashley Alexandra Dupré búið í New York-borg og stundað þar vændi og reynt sitt besta til að vekja athygli á tónlist sinni. Eftir að ríkisstjóri New York-fylkis, Eliot Spitzer, var gripinn glóðvolgur eftir að hafa eytt andvirði 320.000 króna fyrir nótt með söngelsku vændiskonunni hefur ferill hennar farið á flug og standa henni nú allar dyr opnar, að minnsta kosti fleiri en fyrr.

Klámið og tónlistin

Það kemur ekki á óvart, í ljósi þess að Dupré notaði líkama sinn til að vinna fyrir sér, að mörg helstu klámblöðin vestanhafs hafa gert stúlkunni tilboð. Hustler-tímaritið hefur boðið henni eina milljón dollara fyrir að birtast nakin á síðum blaðsins en einnig hefur blaðið Penthouse leitað til hennar ásamt klámmyndafyrirtækinu Vivid Entertainment.

Vinsæl danstónlist

Á tónlistarvefversluninni Amie Street er að finna tvö lög eftir Dupré og í kjölfar hneykslismálsins hafa lögin selst eins og heitar lummur. Aðstandendur Amie Street gefa ekki upp hversu vel lögin hennar hafa selst en dagblaðið New York Post telur að salan nemi um 15 milljónum króna. Þá kemur það lítið á óvart að mörg útgáfufyrirtæki munu vera á höttunum eftir Dupré og tónlist hennar.