VELTA með greiðslukort í febrúar sl. nam 57 milljörðum króna , samkvæmt tölum frá Seðlabankanum, og þar af nam innlend velta um 52 milljörðum króna.
VELTA með greiðslukort í febrúar sl. nam 57 milljörðum króna , samkvæmt tölum frá Seðlabankanum, og þar af nam innlend velta um 52 milljörðum króna. Í Morgunkorni Glitnis segir að þetta sé vísbending um aukið aðhald heimilanna og minnkandi einkaneyslu, þar sem greitt sé fyrir stærstan hluta neyslunnar með greiðslukortum . Miðað við vísitölu neysluverðs og leiðrétt gengi krónunnar, sé þetta aðeins 0,3% meiri velta að raunvirði miðað við febrúar árið 2007. Veltuaukningin í upphafi árs sé umtalsvert minni samanborið við þróunina á síðari helmingi síðasta árs. Versnandi efnahagshorfur, lakari lánskjör og aukin svartsýni neytenda virðist nú hvetja heimilin til að herða beltin og sýna aðhald í neyslu eftir mikla neyslugleði undanfarna mánuði.