LOKAUMFERÐ Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik karla fer fram í kvöld og er baráttan um áttunda sætið hvað hörðust en það lið fer í átta liða úrslitakeppni sem hefst 28. mars. Þór frá Akureyri er með 18 stig í 8.

LOKAUMFERÐ Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik karla fer fram í kvöld og er baráttan um áttunda sætið hvað hörðust en það lið fer í átta liða úrslitakeppni sem hefst 28. mars. Þór frá Akureyri er með 18 stig í 8. sæti deildarinnar og tekur á móti bikarmeistaraliði Snæfells á heimavelli. Með sigri er Þór öruggt í úrslitakeppnina. Ef Snæfell vinnur þurfa Þórsarar að stóla á að Hamar sigri ÍR og Tindastóll leggi Stjörnuna. Þá væru Þór, ÍR og Tindastóll öll með 18 stig en Tindastóll sæti eftir í 9. sæti deildarinnar.

*Stjarnan tekur á móti Tindastól á heimavelli og eiga bæði lið möguleika á 8. sætinu ef Snæfell leggur Þór að velli.

*Stjarnan og Tindastóll standa bæði betur að vígi gegn Þór ef liðin verða jöfn að stigum. Það getur því margt gerst í lokaumferðinni.

KR og Grindavík eru einu liðin sem eiga möguleika á 2. sæti deildarinnar. KR er með 32 stig og Grindavík 30.

Njarðvík tekur á móti Grindavík og KR leikur gegn Skallagrími á heimavelli. Grindavík getur náð 2. sæti deildarinnar með því að sigra Njarðvík en á sama tíma verða Skallagrímsmenn að vinna Íslandsmeistarana á útivelli. Grindavík getur ekki farið neðar en í 3. sæti.

*Njarðvík og Snæfell eru í harðri baráttu um fjórða sæti deildarinnar en það er ljóst að þessi lið munu mætast í 1. umferð úrslitakeppninnar. Með sigri gegn Grindavík nær Njarðvík heimaleikjaréttinum gegn Snæfelli, en liðin eru bæði með 26 stig.

Skallagrímur siglir lygnan sjó með 20 stig í 6. sæti deildarinnar og mætir annaðhvort Grindavík eða KR í 1. umferð.

Ef átta liða úrslit deildarinnar hæfust í dag þá myndu þessi lið mætast:

Keflavík (1.) – Þór Akureyri (8.)

KR (2.) – ÍR (7.)

Grindavík (3.) – Skallagrímur (6.)

Njarðvík (4.) – Snæfell (5.)

Tindastóll og Stjarnan kæmust ekki í úrslitakeppnina en tvö lið eru þegar fallin, Hamar og Fjölnir.