Landsliðsmaður Keflvíkingurinn Jónas Guðni Sævarsson, sem nú leikur með KR-ingum, er áfram í landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Slóvakíu í næstu viku. Jónas Guðni skorað fyrsta markið í sigrinum á Færeyingum á sunnudaginn, 3:0, og er hér með boltann í þeim leik.
Landsliðsmaður Keflvíkingurinn Jónas Guðni Sævarsson, sem nú leikur með KR-ingum, er áfram í landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Slóvakíu í næstu viku. Jónas Guðni skorað fyrsta markið í sigrinum á Færeyingum á sunnudaginn, 3:0, og er hér með boltann í þeim leik. — Morgunblaðið/Eggert
ÓLAFUR Jóhannesson landsliðsþjálfari hefur valið 20 manna leikmannahóp fyrir vináttulandsleik gegn Slóvökum sem leikinn verður ytra þann 26. mars.

ÓLAFUR Jóhannesson landsliðsþjálfari hefur valið 20 manna leikmannahóp fyrir vináttulandsleik gegn Slóvökum sem leikinn verður ytra þann 26. mars. Meðal leikmanna sem eru í hópnum eru Eiður Smári Guðjohnsen og Hermann Hreiðarsson en þar sem um alþjóðlegan leikdag er að ræða gat Ólafur kallað til leiks þá atvinnumenn sem hann kaus að fá.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Jóhannes Karl Guðjónsson, Burnley, gaf ekki kost á sér í leikinn og var sá eini sem það gerði af þeim leikmönnum sem Ólafur leitaði til. „Jóhannes tjáði mér að hann gæfi ekki kost á sér af fjölskylduástæðum. Hann sagði að fjölskyldan væri í fyrirrúmi hjá sér. Ég virði þessa ákvörðun hans en ég neita því ekki að ég er mjög ósáttur við hana. Ég get ekki neytt menn í leiki en þeir geta heldur ekki valið sér leiki til að vera með í,“ sagði Ólafur við Morgunblaðið í gær.

„Við erum ennþá að skoða leikmenn og gefa mönnum tækifæri á að sýna sig. Við spilum þrjá leiki til viðbótar áður en undankeppni HM byrjar og við stefnum að því að vera búnir að finna rétta hópinn og mynda okkur skoðanir um leikmennina þegar þessir leikir eru búnir. Verkefnin sem við höfum verið með í gangi fyrir leikmennina sem spila hér heima hafa gefið okkur helling og fullt af upplýsingum sem við vissum ekki áður.“

Vitum hvar við höfum Tryggva

Tryggvi Guðmundsson sagði í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn við Færeyinga, þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað, að hann ætti landsliðssæti skilið en Ólafur valdi hann ekki í leikinn gegn Slóvökum og heldur ekki Árna Gaut Arason sem undanfarin ár hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins.

„Ég ákvað að gefa Tryggva frí frá þessum leik. Hann hefur staðið sig mjög vel og við vitum hvar við höfum hann. Það komu margir leikmenn sem spila hér heima sterklega til greina í hópinn en ég þarf að skoða fleiri menn og það er gott að geta fengið atvinnumennina í leik sem þennan. Ástæða þess að Árni er ekki valinn er sú að það er ekki hægt að velja leikmann sem er hvorki að spila né er í liði. Ég sá það hins vegar í Morgunblaðinu að hann er að fara til liðs í S-Afríku sem er gott og auðvitað er hann inni í myndinni hjá okkur,“ sagði Ólafur.

Ekki ákveðið hver ber fyrirliðabandið

Spurður hver muni bera fyrirliðabandið í íslenska landsliðinu undir sinni stjórn sagði Ólafur; ,,Ég hef ekki ákveðið hver verður fyrirliði í undankeppninni en ég er að skoða þessi mál,“ sagði Ólafur, en Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið fyrirliði í síðustu 23 leikjunum sem hann hefur leikið með liðinu og þá hefur Hermann Hreiðarsson borið fyrirliðabandið í 8 leikjum.

Íslendingar mæta svo Walesverjum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum 28. maí og fá Aserbaídsjan í heimsókn 20. ágúst en 6. september hefst alvaran þegar Ísland mætir Noregi í Ósló í fyrsta leik sínum í undankeppninni.