Tónlistardeild Listaháskóla Íslands mun bjóða upp á námsbraut í kirkjutónlist frá og með haustinu 2008. Námsbrautin verður rekin í samstarfi við Tónskóla þjóðkirkjunnar.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

„Listaháskólinn leggur ríka áherslu á að vera í góðum tengslum við mannlífið og stofnanir landsins, þar með talið þjóðkirkjuna,“ segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskólans, en í gær var undirritaður samstarfssamningur Listaháskólans og Tónskóla þjóðkirkjunnar um námsbraut til BA-prófs í kirkjutónlist. Í samningnum er gert ráð fyrir að Tónskólinn leggi til námskeið sem lúta að þeirri sérhæfingu sem kirkjutónlist krefst. Námskeiðin eru skilgreind innan kennsluskrár Listaháskólans og um þau gilda sömu reglur og um annað nám innan skólans. „Þarna fær fólk, sem hefur hug á að sérhæfa sig í kirkjutónlist, tækifæri til þess að stunda nám á háskólastigi og sækja námskeið sem lúta þeim ströngu kröfum sem námskeið á háskólastigi eru settar. Skólinn hefur einnig mikinn ávinning af þessu samstarfi enda býður þessi nýja námsbraut upp á að nemendur á öðrum brautum tónlistardeildarinnar fá nú fleiri möguleika í námskeiðavali. Svo má ekki gleyma því að tónlistarsaga Vesturlandanna er að stórum hluta saga kirkjutónlistar,“ bætir hann við.

Víðfeðm þekking

Við lok námsins mun nemandi hafa yfir að ráða víðfeðmri þekkingu á hinum ýmsu þáttum kirkjutónlistar, svo sem orgelleik, litúrgískum orgelleik og kórstjórn og búa ennfremur yfir færni og kunnáttu í undirstöðuþáttum tónlistar á borð við tónfræði, tónbókmenntir, tónheyrn og stafræna miðla. Aðspurður segir Hjálmar að til að byrja með verði tiltölulega fáir nemendur í BA-námi í kirkjutónlist. „Við gerum svo ráð fyrir því að nemendum eigi eftir að fjölga á brautinni með tímanum, eftir því sem meiri reynsla kemur á hana,“ segir hann.

Umsóknarfrestur um nám til BA-gráðu í kirkjutónlist er til 28. mars næstkomandi. Miðað er við að nemendur hafi til undirbúnings kirkjuorganistapróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar eða sambærilegt.

Í hnotskurn
Er fjórða námsbrautin innan tónlistardeildar LHÍ, en skólinn býður nú þegar upp á nám í hljóðfæraleik/söng, tónsmíðum, og tónlistarkennslu. Miðað er við að nemendur hafi til undirbúnings kirkjuorganistapróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar eða sambærilega menntun.