Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

„Í SAMTÖLUM mínum við fulltrúa þeirra mannúðar- og félagasamtaka sem hér eru að störfum kom fram að þeir teldu sig ekki geta starfað í Afganistan ef hér væru ekki alþjóðlegar öryggissveitir,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra en opinber heimsókn hennar til Afganistans hófst í gær.

Á fyrsta heimsóknardegi sínum tók ráðherra þátt í móttöku í höfuðstöðvum ISAF í Kabúl fyrir fulltrúa frá alþjóðasamfélaginu í Afganistan, m.a. fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Alþjóðabankans og Rauða krossins auk fulltrúa mannréttindasamtaka og félagasamtaka sem Íslendingar hafa starfað með á svæðinu. Aðspurð hvað sé efst á baugi í viðræðum aðila segir Ingibjörg að rætt sé um stöðuna í landinu og hvort árangur sé að nást.

Auðvitað meðvituð um hætturnar

Spurð hvort sér finnist ógnvekjandi að dvelja í Afganistan á sama tíma og frá landinu berast fréttir af átökum og sjálfsmorðssprengjuárásum svarar Ingibjörg því neitandi. „Auðvitað er maður alveg meðvitaður um að það eru hér hættur sem maður þarf að búa sig undir og reyna að forðast,“ segir Ingibjörg og bætir við að sér finnist aðdáunarverðast að hitta allt það hæfa fólk sem vinni fyrir hin margvíslegu félagasamtök, mannúðarsamtök og ríkisstjórnir, af fúsum og frjálsum vilja af því það hafi svo mikla löngun til þess að sjá breytingar, þ.a. að hlutirnir geti færst til betri vegar í Afganistan. „Þetta er gríðarlega öflugt, hæft og vel menntað fólk sem ég hitti hér í kvöld. Við getum verið mjög stolt af Íslendingum sem starfa hérna. Ég er mjög stolt yfir því hvað Íslendingar sem eru á okkar vegum hérna eru kraft- og kjarkmikið fólk.“

En telur ráðherra að þeir sem eru að störfum í Afganistan séu bjartsýnir á nánustu framtíð? „Mér finnst almennt að í raun sé ástandið betra heldur en fréttaflutningur gefi tilefni til að ætla. Vegna þess að þær árásir sem hér eru eiga ekki við um landið allt heldur eru bundnar við ákveðin svæði sem allir vita að eru hættuleg og að þar megi búast við hryðjuverkum,“ segir Ingibjörg og tekur fram að vissulega hafi öryggisástandið ekki batnað að undanförnu.

Á næstu dögum mun ráðherra skoða þau verkefni sem Íslendingar taka þátt í, auk þess að hitta afganska ráðamenn.