Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is „ÉG fékk þungt spark í hnéð og það er bólgið en þetta er ekkert alvarlegt.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

„ÉG fékk þungt spark í hnéð og það er bólgið en þetta er ekkert alvarlegt. Ég skokkaði í morgun og verð vonandi leikfær fyrir leikinn á móti Valencia,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eiður meiddist undir lok leiksins við Almería í fyrrakvöld þegar brotið var á honum og þurfti hann að yfirgefa völlinn en Eiður átti fínan leik með Börsungum og fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína. Barcelona tapaði tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttunni með því að gera 2:2 jafntefli.

„Það var fúlt að ná ekki vinna því mér fannst við hafa góð tök á leiknum,“ sagði Eiður. Spurður út í eigin frammistöðu í leiknum sagði Eiður; „Ég var ánægður með minn leik og þá einkum í seinni hálfleik. Ég fann að það var góður kraftur í mér og vonandi verður framhald þar á.“

Þegar 10 umferðir eru eftir er Barcelona sjö stigum á eftir Real Madrid en Eiður hefur þrátt fyrir það ekki gefið upp alla von um að hampa meistaratitlinum í vor. „Þetta er ekki búið enn. Það sem við þurfum að gera er að reyna að saxa á þetta forskot og vera búnir að því áður en við mætum Real Madrid. Bæði lið hafa gefið mikið eftir á undanförnum vikum og slæmt fyrir okkur að hafa ekki náð að nýta okkur það þegar Real Madrid hefur tapað leikjum sínum,“ sagði Eiður Smári.