[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undirritaður rekstraraðili og kaupmaður í miðbæ Reykjavíkur vill með bréfi þessu vekja athygli á því ístöðuleysi og stöðnun sem einkennir framkvæmdir og uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur.

Undirritaður rekstraraðili og kaupmaður í miðbæ Reykjavíkur vill með bréfi þessu vekja athygli á því ístöðuleysi og stöðnun sem einkennir framkvæmdir og uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur. Síðasta dæmið í þessari endalausu sorgarsögu er sú staða sem nýbyggingaráform að Laugavegi 4-6 er í. Síðustu áratugir í uppbyggingarsögu miðbæjarins hafa einkennst af stefnuleysi, ákvörðunarskorti og reglugerðarkviksyndi skipulags- og byggingaryfirvalda. Ótal nefndir álitsgjafar, pólitískir sem ópólitískir rýnihópar hafa verið pólitískum valdhöfum á hverjum tíma til ráðgjafar auk embættismanna borgarkerfisins. Nýframkvæmdir eða verulegar endurbætur á mannvirkjum miðbæjarins á síðustu áratugum hafa verið fáar, og ástand margra húsa slíkt að hryggilegt er á að horfa. Reglugerðir og skipulagsákvæði eru óskiljanleg nema fyrir fáa útvalda.

Handahófskenndar aðgerðir

Miðbær Reykjavíkur á að vera hjarta og lífæð viðskipta og stjórnsýslu. Til að svo verði þarf að hverfa frá þeim handahófskenndu stjórnvaldsaðgerðum sem einkennt hafa síðustu áratugi. Breska ljóðskáldið W.H. Auden kallaði Seyðisfjörð í ferðabók sinni, snemma á síðustu öld: „A charmfull dying town.“ Ummæli þessi hafa ekki glatað merkingu sinni en landfræðilega hafa þau færst til. Máli þessu til stuðnings nægir að vísa til þeirra húsa sem grotna niður við Laugaveg og í nágrenni hans. Brunarústir og útgrafnar lóðir standa óhreyfðar mánuðum og árum saman. Þetta samspil grotnandi mannvirkja í skipulagslausri framtíðarsýn borgaryfirvalda fyllir síðan götur og stræti döpru mannlífi.

Okkar sameiginlega umhverfi

Þetta bréf er því ritað til þeirra er valdið hafa, í þeirri von að Laugavegurinn ásamt hans nánasta umhverfi verði reistur úr öskustónni, og glæst mannvirki hefji hann til vegs og virðingar á ný. Þeir sem valdið hafa verða að taka fyrstu skrefin. Það er einnig eðlilegt að þeir sem valdið hafa beiti sér fyrir því að eigendur og rekstraraðilar sinni viðhaldi mannvirkja og umhverfis með eðlilegum hætti. Það má ekki gleymast að hér er um okkar sameiginlega umhverfi að ræða og meðal annars þess vegna er ekki hægt að sitja orðlaus við núverandi aðstæður. Yfirvöld hafa heimild í reglugerðum til að beita sér í málum sem þessu, hví er þeim ekki beitt?

Með von um úrbætur og fagran miðbæ.

Höfundur er kaupmaður