Öflugur Nýr slökkvibíll afhentur með viðhöfn í húsi slökkviliðsins
Öflugur Nýr slökkvibíll afhentur með viðhöfn í húsi slökkviliðsins — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grásleppuvertíð er nýhafin en heimilt var að leggja fyrstu net í sjó hinn 10. mars sl. Sæmundur Einarsson á Manna ÞH var sá eini sem byrjaði vertíðina strax þá en leiðinlegt tíðarfar hefur haldið aftur af grásleppukörlum.

Grásleppuvertíð er nýhafin en heimilt var að leggja fyrstu net í sjó hinn 10. mars sl. Sæmundur Einarsson á Manna ÞH var sá eini sem byrjaði vertíðina strax þá en leiðinlegt tíðarfar hefur haldið aftur af grásleppukörlum. Búast má við að sjö til átta bátar verði á grásleppuveiðum frá Þórshöfn þessa vertíð, að sögn Sæmundar, sem er einn um hituna þessa dagana, þar til hinir fara af stað. Sæmundur lagði um þrjá fjórðu af netafjölda sínum fyrstu tvo dagana og sagði hann aflann vera ellefu tunnur eftir tvær vitjanir sem er þokkaleg byrjun.

Stærstur hluti af hrognunum er fluttur ferskur suður til kaupandans sem saltar þar en lítill hluti er saltaður hér heima. Verðið segir Sæmundur í lægra lagi: „Það átti enginn von á svo lágu verði miðað við umfjöllun almennt en það hefur þó heldur þokast upp á við eftir því sem liðið hefur á,“ segir hann.

Sæmundur tekur langa gráslepputörn að þessu sinni, því fyrstu fimmtíu dagana gerir hann út á Manna ÞH og síðan aðra fimmtíu á bátnum Einari Lár ÞH sem einnig er í eigu hans. Norðanátt er nú framundan en hún er grásleppukörlum afar óhagstæð.

Brunavarnaráætlun fyrir starfssvæði slökkviliðs Langanesbyggðar var undirrituð á föstudaginn var en en það gerðu Björn Karlsson brunamálastjóri, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, og Ragnar Skúlason, oddviti Svalbarðshrepps.

Að því loknu skiptust brunamálastjóri og sveitarstjóri á skemmtilegum gjöfum; sá fyrrnefndi gaf sveitarstjóra forláta penna, merktan Brunamálastjórn en með gömlu, úreltu símanúmeri. Sveitarstjóri endurgalt gjöfina með vönduðu handklæði með úreltum lógómerkjum sveitarfélaganna sem sameinuðust í Langanesbyggð vorið 2006 og voru báðir hæstánægðir með gjafir sínar.

Fleira var á dagskrá í brunavörnum byggðarlagsins en einnig átti að afhenda formlega nýjan slökkvibíl sem kom til landsins fyrir skömmu. Það var gert í húsnæði slökkviliðsins á Þórshöfn þar sem mættir voru fulltrúar frá Ólafi Gíslasyni – Eldvarnarmiðstöðinni og Flugstoðum ásamt brunamálastjóra, fulltrúum Langanesbyggðar og einnig starfsmenn slökkviliðsins.

Að kaupunum standa í sameiningu Flugstoðir og sveitarfélagið Langanesbyggð þar sem hagsmunir þeirra féllu saman við kaupin á þessum sérsmíðaða, öfluga bíl, sem hentaði beggja þörfum en hjá báðum var komið að endurnýjun slökkvibíla. Einnig er hugsanlegt frekara samstarf þessara aðila í þá átt að Langanesbyggð taki yfir daglegan rekstur Þórshafnarflugvallar. Nýi slökkvibíllinn er smíðaður í Póllandi, sérbyggður fyrir húsbruna og til slökkvistarfa á flugvelli og er með þeim fullkomnari á landinu, að sögn afhendingaraðila. Húsnæði slökkviliðsins hefur verið mikið endurnýjað og aðstaða þar fyrir starfsmenn og allan búnað orðin mjög góð.

Heilbrigðismál og læknisþjónusta hafa löngum verið okkur Íslendingum hugleikin enda einn mikilvægasti málaflokkur í landinu. Þegar fólk horfir til vænlegra búsetusvæða vegur heilbrigðisþjónusta þar þungt og getur jafnvel haft úrslitaáhrif, ekki síst í dreifbýli þar sem töluverð vegalengd er oft til næsta sjúkrahúss.

Á Þórshöfn voru læknaskipti tíð áður fyrr en frá árinu 1991 hefur sami læknirinn setið og starfað á Þórshöfn, í nær 17 ár. Nærri má geta hvers virði það er íbúum byggðarlagsins að búa við slíkt öryggi, nú þegar landsbyggðin á undir högg að sækja.

Árið 2008 er merkilegt ár í sögu læknisþjónustu á Þórshöfn því þá á hún 100 ára afmæli. En í bókinni Landið þitt Ísland , (útg.1984) segir að læknir hafi setið á Þórshöfn allt frá árinu 1908. Haldið hefur verið upp á ómerkari tímamót en þessi, en hvað sem öllum hátíðahöldum líður þá er það fyrst og fremst ósk íbúa byggðarlagsins að heilbrigðisþjónustu verði áfram sinnt á Þórshöfn á farsælan hátt, líkt og verið hefur.

Eftir Líneyju Sigurðardóttur

Höf.: Líneyju Sigurðardóttur