Dætur mínar eiga sjö ára afmæli á morgun. Þær geta ekki beðið eftir að eldast. Ég hef ekki enn fengið af mér að segja þeim að þær verði stelpur fram yfir þrítugt, svo komi u.þ.b.

Dætur mínar eiga sjö ára afmæli á morgun. Þær geta ekki beðið eftir að eldast.

Ég hef ekki enn fengið af mér að segja þeim að þær verði stelpur fram yfir þrítugt, svo komi u.þ.b. 10 ára tímabil þar sem þær teljist kannski til brúklegra þjóðfélagsþegna sem mark er takandi á, en að því tímabili loknu umturnist þær í kellingar. Og kellingar eru til fárra hluta brúklegar.

Svo undarlegt sem það nú er, þá er ævi karlmanna með allt öðrum brag. Vissulega eru þeir fyrst strákar. Þá eru þær stelpur.

Svo verða þeir ungir menn og jafnvel efnilegir ungir menn. Þá eru þær áfram stelpur, en sumar að vísu efnilegar stelpur. Á þriðja stigi verða þeir bara „menn“ og á mönnum er mark takandi. Þá eru þær enn stelpur, en hafi þær menntað sig og séu fylgnar sér þykja þær að vísu marktækar á þessu tímabili. Konur eru þær sjaldnast kallaðar, enda þykir það eins konar skammaryrði. Komi karlmaður í hús þykir ekkert tiltökumál að hrópa: „Það er hér maður að spyrja eftir þér!“ Komi kona í hús verður fólk vandræðalegt, heldur að það móðgi hana með því að kalla hana konu, kallar hana frekar stelpu eins lengi og hægt er, en kemur sér undan því ella.

Að þessu tímabili loknu eru þeir enn „menn“. Þær eru kellingar.

Þetta sést skýrt í stjórnmálunum. Þar verða efnilegu, ungu stjórnmálamennirnir að stjórnmálamönnum. Efnilegu, ungu stelpurnar verða kellingar.