Árni Snævarr
Árni Snævarr
Eftir Árna Snævarr: "...það hlýtur að taka á taugarnar að verja stefnu sem fært hefur okkur hæstu vexti í heimi og hæsta matarverð á byggðu bóli."

SIGURÐUR Kári Kristjánsson, alþingismaður sýnir mér þann heiður að kalla mig „kappsfullan Evrópusinna“ sem beiti almenning blekkingum í grein sem Morgunblaðið birtir á miðopnu sinni. Ástæða þess að alþingismaðurinn ber mig þessum þungu sökum er sú að ég hafði eftir Olli Rehn, umsjónarmanni samningaviðræðna við ríki sem sækja um aðild að Evrópusambandinu, að EES samningurinn næði til þriggja fjórðu hluta lagasetningar ESB. Rehn sagði að viðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu gætu tekið skamman tíma enda þyrfti einungis að ræða málefni sjávarútvegs- og landbúnaðar.

Sigurður Kári er lærisveinn Davíðs frænda míns Oddssonar. Saman notuðu þeir „smjörklípuaðferðina“ á alþingi hér um árið þegar Sigurður Kári spurði hve stóran hluta löggjafar ESB Ísland hefði tekið upp. Svar þáverandi utanríkisráðherra var vandað í alla staði og fylgdi mikil talnaruna sem er uppistaða greinar Sigurðar Kára. Davíð var á sínum pólítíska ferli snillingur í því að skipta um umræðuefni þegar honum hentaði: að beina athyglinni að aukaatriði til að beina athyglinni frá kjarna málsins. Í Matthildarþáttunum stórsnjöllu í útvarpinu kallaði hann þetta hnéaðferðina í eftirminnilegum brandara.

Mér dettur ekki í hug að fara að rökræða við Sigurð Kára um fjölda laga og reglugerða. Sigurður Kári má mín vegna eyða ævi sinni í að telja öll lög og jafnvel ólög Evrópusambandsins. Lög og gerðir ESB eru margvísleg og Ísland tekur að sjálfsögðu ekki upp reglur um ólífurækt og lestarsamgöngur svo dæmi séu tekin. Nóg er það samt: Evrópusambandið tekur ákvarðanir um allt sem viðkemur innri markaðnum og lýðveldið Ísland hefur álíka áhrif á mótun slíkra laga og hver annar þrýstihópur í Brussel. Túlkunin á EES samningnum hefur breyst frá því hann var samþykktur. Þeim sviðum sem nú eru talin tilheyra innri markaðnum hefur fjölgað, þannig að til dæmis flestallt sem skiptir máli í umhverfismálum er ákveðið í Brussel.

Hvað sem talnaleik Sigurður Kára líður er staðreyndin sú að vilji Íslendingar móta sína eigin framtíð, gerum við það með því að ganga í Evrópusambandið þar sem við deilum fullveldi okkar með öðrum þjóðum í stað þess að afhenda þeim það. Hver þjóðin á fætur annarri hefur gengið í Evrópusambandið á undanförnum árum. Getur Sigurður Kári útskýrt fyrir mér hvers vegna ekki einu einasta sjálfstæðu ríki hefur svo mikið sem dottið í hug að gerast aðili að EES samningnum? Samkvæmt skilgreiningum þingmannsins hafa þessi ríki verið að afsala sér fullveldi sínu. Samkvæmt skilgreiningu hans og fylgismanna hans eru Stóra-Bretland, Þýskaland og Frakkland sem sagt ekki fullvalda ríki! Hefur einhver sagt Brown, Sarkozy og Merkel frá þessu?!

Davíð frændi minn fékk Tryggva Herbertsson á sínum tíma til að reikna kostnað við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Tryggvi reiknaði og reiknaði, rétt eins og Sigurður Kári telur nú og telur, ákaft hvattur áfram af frænda mínum í Svörtuloftum. Svo mikið hamaðist Herbertsson að hann komst að því Ísland myndi greiða meira til Evrópusambandsins en nokkurt ríki hefur nokkru sinni greitt þangað.

Í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra eru reikningskúnstir Tryggva hins vegar gleymdar. Í skýrslu nefndarinnar sem Björn Bjarnason stýrði er komist að þeirri niðurstöðu að nettógreiðslur okkar til ESB verði sáralitlar og sé kostnaðurinn við aðildina að EES dreginn frá – kunni ESB að vera ódýrara en EES.

Þetta er ekki mín niðurstaða heldur niðurstaða Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og samnefndarmanna hans úr öllum stjórnmálaflokkum. Ég skil vel reiði Sigurðar Kára yfir því að sífellt fleiri samflokksmenn hans hafa snúist á sveif með aðild að Evrópusambandinu. Ég vísa því á bug að ég hafi reynt að beita almenning blekkingum. Hins vegar ætla ég ekki að erfa þennan málflutning við alþingismanninn enda ljóst að það hlýtur að taka á taugarnar að verja stefnu sem fært hefur okkur hæstu vexti og hæsta matarverð á byggðu bóli. Ég ráðlegg mínum gamla kunningja Sigurði Kára að lesa Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar því þar kemur fram að kostnaður við ESB aðild er ekki umtalsverður, engar þjóðir eiga heimtingu á fiskveiðiheimildum við Ísland og að tollavernd landbúnaðar standist ekki til lengdar burtséð frá ESB. Vonandi skilur Sigurður Kári að Ísland á aðeins einn kost og hann góðan: að ganga í Evrópusambandið.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Árna Snævarr