Júlíus Jónsson
Júlíus Jónsson
„VIÐ teljum að þetta sé jafn öruggt og nokkuð getur verið í þessum efnum,“ segir Júlíus Jónsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Suðurnesja (HS) um getu fyrirtækisins til þess að afla orku fyrir fyrsta áfanga álversins í Helguvík.

„VIÐ teljum að þetta sé jafn öruggt og nokkuð getur verið í þessum efnum,“ segir Júlíus Jónsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Suðurnesja (HS) um getu fyrirtækisins til þess að afla orku fyrir fyrsta áfanga álversins í Helguvík. Í tilkynningu frá HS segir að samningar við Norðurál um útvegun orkunnar liggi fyrir og allt bendi til þess að auðvelt verði að standa við samninga. Hlutur hitaveitunnar í orkuöflun fyrir fyrsta áfangann verður á bilinu 100-150 MW. Nú þegar framleiðir hún 175 MW sem samningar gilda um en þar af eru samningar lausir fyrir 35 MW árið 2011.

Gufuöflun fyrir þriðju vélina í orkuverinu á Reykjanesi er að sögn Júlíusar langt komin, en sú vél verður 50 MW. Þá er á teikniborðinu að vinna önnur 50 MW úr 700 sekúndulítrum 200°C heits affallsvatns á Reykjanesi og að ráðast í gerð 35-50 MW virkjunar við Eldvörp.

Rannsaka fjögur svæði

Fyrir annan áfanga virkjunarinnar þarf samkvæmt samningi að afhenda önnur 100-150 MW, segir í tilkynningunni. HS hafi rannsóknarleyfi á fjórum svæðum sem samanlagt séu talin geta gefið af sér 400 MW afl. Þess sé vænst að rannsóknarboranir geti hafist í lok ársins en unnið sé að skipulagsmálum með viðkomandi sveitarfélögum í þeim málum.

Einnig segir Júlíus að skv. upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem einnig hefur samið við Norðurál um afhendingu raforku til Helguvíkur, sé ráðgert að framleiða um 300 MW árin 2010-2011 á Hengilssvæðinu. Samningur OR, sem samþykktur er af stjórn fyrirtækisins, geri því ráð fyrir aðeins þriðjungi þess magns til Helguvíkur.

„Við teljum því ekki tilefni til að halda því fram að mikil óvissa ríki um orkuöflunina,“ segir Júlíus.