Ólafur í Tate „Þessi sýning var erkitýpísk, hún var kunnuglegt tákn.“
Ólafur í Tate „Þessi sýning var erkitýpísk, hún var kunnuglegt tákn.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag klukkan 16:30-18:00 verður haldin málstofa í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, um netmiðla á vegum vefritsins Kistunnar. Yfirskriftin er fjölmiðlar og fámiðlar.

Í dag klukkan 16:30-18:00 verður haldin málstofa í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, um netmiðla á vegum vefritsins Kistunnar. Yfirskriftin er fjölmiðlar og fámiðlar. Gauti Sigþórsson flytur erindi en hann hefur sérstaklega kannað nýjustu þróun í heimi fjölmiðla í Bretlandi. Elín Hirst, fréttastjóri RÚV – sjónvarps og Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar.is taka þátt í pallborðsumræðum að loknu erindinu.

Sjónvarp og útvarp eru að renna saman í netmiðlaða gagnagrunna sem ná til áheyrenda, áhorfenda og lesenda með fjölbreyttari og einstaklingsbundnari hætti en gömlu fjölmiðlarnir hafa hingað til gert. Hvernig er „vistkerfi miðlanna“ að breytast á Íslandi, hvar eru nýjungarnar á íslenskum (fjöl)miðlamarkaði, hverjar eru hætturnar og hvar liggja tækifærin fyrir rótgrónar stofnanir eins og RÚV, Morgunblaðið og bókútgáfurnar, jafnt sem nýrja miðla?

Í tilefni af þessu langar mig til að velta upp spurningunni um það hvernig nýir miðlar orka á okkur og hvernig við getum brugðist við.

Nýir miðlar og ný tjáningarform orka á okkur eins og klisjur, þau metta samtímamenninguna og eru notuð án umhugsunar um merkingu þeirra. Klisjan virðist merkingarlaus. Við komum ekki auga á hana. En einstöku sinnum tekst að afhjúpa merkingu hennar, einstöku sinnum tekst að varpa ljósi á þau áhrif sem nýir miðlar hafa á okkur og þá verður eitthvað til sem gengur þvert á skilning okkar. Þetta eru oft mikilfengleg listaverk sem fyrst í stað orka fráhrindandi á fólk, fá harkalega dóma, eru jafnvel bönnuð. Ódysseifur eftir James Joyce er eitt af þessum verkum. Vitundarflæðið í textanum og uppbrotið á hinni línulegu frásögn, endalausir útúrdúrarnir og smáatriðaflaumurinn lýstu vel hvaða áhrif rafvæðingin hafði haft á hugsun mannsins í byrjun tuttugustu aldar. Gamlir miðlar, eins og prentið nú, orka hins vegar á okkur eins og erkitýpur, við þekkjum virkni þeirra og við þekkjum áhrif þeirra, það þarf ekki að ráða í merkingu þeirra fyrir okkur, þeir eru hluti af hefð okkar. Og þannig eru einnig flest listaverk. Þau eru erkitýpísk tákn sem við kunnum vel að lesa í. Og þessi listaverk vekja ekki andúð okkar, þau orka ekki fráhrindandi, við túlkum þau og tökum yfirvegaða afstöðu. Hefðbundin listform eru í þessum skilningi erkitýpísk. Þau hætta að koma okkur á óvart, þau verða fyrirsjáanleg. Þau verða sakleysinu að bráð.

Í bókmenntum er enn hægt að hugsa um ríkjandi ástand, en spurningin er hvort þær geti sagt okkur hvernig við hugsum nú um stundir. Er enn mögulegt að það komi út bók sem orki jafn sterkt á okkur og Ódysseifur eftir Joyce? Er mögulegt að það komi út bók á næstu misserum sem afhjúpi áhrif Netsins á skilning okkar og skynjun á heiminum? Eða eru möguleikar prentsins uppurnir?

Hins sama mætti spyrja um myndlistina. Og þá ekki bara málverkið. Það vekur til dæmis athygli að fræg sýning Ólafs Elíassonar í Tate-safninu í London fyrir nokkrum árum miðaði fyrst og fremst að því að staðfesta skilning okkar á gildi eða virkni listasafnsins í samfélaginu og hugmyndir um samband eða samstarf höfundar og áhorfanda í merkingarsköpun listaverks. Í báðum tilfellum er um að ræða hugmyndafræði sem kom fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Sýningin gekk sem sé ekki þvert á skilning okkar, hún var ekki fráhrindandi heldur þvert á móti ótrúlega vinsæl (2,2 milljónir áhorfenda sóttu hana). Þessi sýning var erkitýpísk, hún var kunnuglegt tákn.

Og auðvitað mætti velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki einmitt það sem menningarneytandinn vill. Vill hann ekki fá þekkingu sína staðfesta og viðurkennda þegar hann sækir listviðburð eða les bókmenntaverk? Vill hann ekki frekar sjá fortíðina í rómantísku ljósi en að sjá vanþekkingu sína og blindu á klisju dagsins – eigið umhverfi, eigin samtíma – afhjúpaða með raunsæjum eða raunverulegum hætti? Er þetta ekki hugsanlega ein af ástæðunum fyrir því að formúlulistin gengur yfirleitt upp, að metsölulistin er til?

Þröstur Helgason (throstur@mbl.is)

Höf.: Þröstur Helgason (throstur@mbl.is)