Fjölbreytt námsframboð og breidd Háskóla Íslands nýtist vel við skipulagningu MPA-náms með sérhæfingu. Námsleiðin gæti orðið öðrum greinum fyrirmynd.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Boðið verður upp á MPA-nám með sérhæfingu á 11 fagsviðum við Háskóla Íslands frá og með næsta hausti. Nemendur geta þá lokið skyldukjarna í opinberri stjórnsýslu en nýtt svigrúmið í vali til þess að sérhæfa sig á tilteknu sviði. Jafnframt gera nemar lokaverkefni sem tengist opinberri stjórnsýslu á því sviði.

Sérhæfing í námi

„Við höfum tekið eftir því að í námið hjá okkur kemur fólk úr öllum áttum og með alls konar bakgrunn. Við höfum boðið því upp á nám í stjórnsýslu og stjórnunarfræðum en þá er fólk ekki að sérhæfa sig á tilteknum sviðum heldur í stjórnun almennt, “ segir Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. „Okkur langaði að gefa fólki færi á að dýpka sjálft sig í þeim greinum sem það gerir ráð fyrir að starfa í,“ bætir hann við og bendir á að í því skyni nýtist vel það fjölbreytta námsframboð og breidd sem Háskólinn búi yfir. „Þetta er eiginlega klassískt dæmi um samlegðaráhrif. Við erum með almenna stjórnun og stjórnsýslu en svo notum við í raun framboð Háskólans á námi á hinum ólíku sviðum þannig að fólk getur dýpkað nám sitt til dæmis í umhverfisstjórnun, lýðheilsuvísindum, stjórnsýslurétti og svo framvegis,“ segir Gunnar Helgi.

Módel fyrir aðrar greinar

Gunnar Helgi segir að hugmyndin hafi fengið góðar undirtektir innan Háskólans og ekki hafi reynst neinum vandkvæðum bundið að koma á samstarfi við aðrar deildir skólans. „Ég held að fleiri greinar í Háskólanum muni fylgja í kjölfarið og mér heyrist á viðbrögðunum í deildunum að fólk líti jafnvel á þetta sem módel fyrir hvernig Háskólinn eigi að vinna, að minnsta kosti í þverfaglegum greinum,“ segir hann.

Meistaranám í opinberri stjórnsýslu tekur tvö ár en einnig er boðið upp á diplómanám sem miðað er við að fólk taki á einu misseri. „Diplómanámið er ekki síst hugsað fyrir þá sem langar að læra meira en vita ekki hvort þeir eru tilbúnir að fara í fullt meistaranám. Við gefum þeim færi á að prófa að fara í nám í eitt misseri og ákveða síðan hvort þeir vilji klára meistaragráðu,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson að lokum.

Í hnotskurn
Boðið er upp á sérhæfingu í umhverfisstjórnun, lýðheilsuvísindum, stjórnun menntastofnana, stjórnsýslurétti, alþjóðasamskiptum, Evrópurétti, umhverfis- og auðlindarétti, upplýsingastjórnun og rafrænum samskiptum, þjóðarétti, viðskipta- og skattarétti og hagnýtri jafnréttisfræði. Nánari upplýsingar má nálgast á www.mpa.hi.is.