— Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is Vímuefnavandi Íslendinga hefur aldrei verið meiri en nú. Vandi ungs fólks hefur vaxið gríðarlega síðasta áratug og það ánetjast örvandi vímuefnum í vaxandi mæli.

Eftir Skapta Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Vímuefnavandi Íslendinga hefur aldrei verið meiri en nú. Vandi ungs fólks hefur vaxið gríðarlega síðasta áratug og það ánetjast örvandi vímuefnum í vaxandi mæli. Sjúkrahúsið Vogur hefur ekki undan eins og er og þar hefur aldrei verið meira að gera en á fyrstu mánuðum þessa árs. Þetta kom fram í máli Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, þegar hann kynnti umfang og starfsemi SÁÁ í gær. Þórarinn gerði það á Akureyri þegar nýtt húsnæði göngudeildar SÁÁ þar í bæ var tekið í notkun.

„Notkun örvandi vímuefna er gríðarlega mikið vandamál á meðal ungs fólks í dag, það hefur farið vaxandi og er ekki að réna þegar horft er til nokkurra ára,“ sagði Þórarinn í gær.

„Hrikalegt“

Yfirlæknirinn sagði að 70% þeirra sem koma á Vog frá tvítugu til þrítugs væru háð örvandi vímefnum. „10% þeirra eru komin með lifrarbólgu C og 25% þeirra sprauta sig í æð,“ sagði Þórarinn.

Skv. tölum úr gagnagrunni Vogs komu um 20 manns til meðferðar vegna notkunar kókaíns árið 1996, en í fyrra komu hátt í 300 manns á Vog sömu erinda. Aukningin er einfaldlega „hrikaleg“ eins og Þórarinn orðaði það. „Ástandið versnaði mest frá 1996 og fram að 2000, það hefur nokkurn veginn staðið í stað síðan – heldur aukist reyndar – en það er greinilega ekki að lagast.“

Góðu fréttirnar þetta árið, segir Þórarinn, eru þær að morfínfíklum virðist vera að fækka. Ástæður þess segir hann aðgerðir landlæknisembættisins og viðhaldsmeðferð á Vogi. „Við sjáum líka að þeim fækkar sem eru að fikta við að sprauta sig mjög ungir.“

Áhyggjur af eldra fólki

Áfengisneysla fólks yfir fimmtugu er sífellt meira áhyggjuefni, segir Þórarinn. „Fólk hefur kannski drukkið daglega lengi en þegar það er komið yfir fimmtugt og lendir jafnvel í einhverjum áföllum leitar það til SÁÁ vegna dagdrykkju og meðferðarinngrip skila mjög góðum árangri hjá þessu fullorðna fólki.“

Árið 2001 komu um 200 manns, 50 ára og eldri, á Vog en í fyrra 250 á aldrinum 50 til 59 ára. Á sama tíma fjölgaði þeim í aldursflokknum 60-69 ára, sem komu á Vog, úr 60 í 130.

Drykkjuvandamál fólks í elstu aldursflokkunum er því meira en margan grunar.

„Við sjáum hér, eins og bent hefur verið á annars staðar í Evrópu, að fullorðna fólkið sækir í vaxandi mæli inn á heilbrigðisstofnanir vegna sídrykkju og afleiðinga hennar sem eru fyrst og fremst greindarskerðing og minnistap, og aðrir fylgikvillar frá lifur, brisi, meltingarvegi og vöðvakerfi. Þetta eru gríðarlega mikil heilbrigðisvandamál.“

Og það er einmitt gamla fólkið, ekki unglingarnir eins og gjarnan er nefnt, sem Þórarinn hefur mestar áhyggjur af verði farið að selja áfengi í matvöruverslunum. „Ef áfengi verður sett í verslanir, verður það fyrst og fremst þetta fólk sem eykur neysluna, ekki unglingarnir. Þeir sem auka áfengisneysluna verða þeir sem eiga erfiðara með hreyfingu; eiga erfitt með að koma sér á staðina. Unga fólkið á ekki í vandræðum með það. Það hefur alltaf drukkið rösklega og mætt samt í skólann á mánudögum; jafnvel staðið sína plikt fram yfir tvítugt. Það á ekki eftir að breytast mikið.“

Vandinn eykst hjá stúlkum

Ástandið hjá ungum stúlkum og konum hefur einkum versnað síðustu ár, að sögn Þórarins og Valgerðar Rúnarsdóttur, sem einnig er læknir hjá SÁÁ. „Það hefur komið í ljós að við höfum vanmetið ástandið meðal ungra kvenna og unglingsstúlkna,“ sagði Þórarinn. Hlutfallslega fleiri 20 ára og yngri konur koma til meðferðar nú en áður.

Valgerður segir erfitt að benda á ástæður þess að þróunin sé eins og raun ber vitni hjá kvenþjóðinni. „Við getum spurt okkur hvers vegna þriðjungur þeirra sem koma í meðferð hjá okkur eru konur en ekki fleiri. Ég hef ekki svar við því hvort þetta sé minni sjúkdómur hjá þeim eða hver skýringin er, en nú er ljóst að í yngstu hópunum er hlutfallið svipað. Allt að því jafn margir strákar og stelpur á þeim aldri koma í meðferð.“

Valgerður segir yfirleitt um að ræða kannabis og örvandi vímuefni hjá stúlkunum. Áfengis sé oftast neytt með en aðalvandinn séu ólöglegu vímuefnin.

Margir á Vog

Þórarinn greindi frá því í gær að 5,3% af öllum núlifandi Íslendingum hefðu farið í meðferð á Vogi. Sú tala er reyndar frá því í árslok 2006 en hefur líklega ekki breyst mikið. Þá höfðu 7,4% allra núlifandi karla farið í meðferð og 3,1% kvenna.

Sambærilegar tölur frá sama tíma miðað við alla núlifandi Íslendinga 15 ára og eldri eru þær að 6,7% hafa farið í meðferð – hvorki meira né minna en 9,4% karla og 4% kvenna.

Frá árinu 1977 til ársloka 2006 höfðu 13.440 karlar farið í meðferð á Vogi og 5.291 kona. Innlagnir voru alls tæplega 54.000 vegna þess að sumir koma nokkrum sinnum.

Árið 2007 var hlutfall kvenna komið upp í 31,4% – konurnar voru 711 en karlarnir 1529.

Þórarinn vakti athygli á því að um 4% allra eru komin í meðferð á Vogi áður en þau verða tvítug og hátt í 7% áður en þau verða 25 ára.

Um 14.722 einstaklingar eða 79% sjúklingahóps SÁÁ hafa komið þrisvar sinnum eða sjaldnar til meðferðar en 532 núlifandi Íslendingar hafa komið oftar en 10 sinnum til meðferðar skv. upplýsingum Þórarins. Það eru 2,8 % sjúklingahópsins.

Mun fleiri eru meðhöndlaðir vegna vímuefnavandamála hérlendis en í nálægum löndum. Talið er að hér sé um helmingur þeirra sem á því þurfa að halda meðhöndlaður en aðeins tíu af hundraði annars staðar. Og árangurinn er mjög góður hér, segir Þórarinn: Árangur meðferðar er um 80% og tiltölulega fáir koma æ ofan í æ. Helmingur kemur einu sinni á Vog en 80% tvisvar eða þrisvar.

Gríðarlega mikil þörf fyrir göngudeildina á Akureyri

„ÞETTA er mikill gleðidagur,“ sagði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ á Vogi, þegar tekið var í notkun nýtt húsnæði fyrir göngudeild SÁÁ á Akureyri í gær. Starfsemin hefur verið á hrakhólum undanfarið en samtökin keyptu húsnæðið í Hofsbót 4 þangað sem deildin hefur nú verið flutt.

SÁÁ er ekki með þjónustusamning við hið opinbera vegna göngudeildarinnar, hvorki á Akureyri né í Reykjavík. „Reksturinn er því í nokkurri óvissu,“ sagði Þórarinn í gær. Hann lýsti samt mikilli ánægju með að starfsemin væri komin í nýtt hús. „Við vorum heppin að geta keypt þetta húsnæði. Það er engin áhætta tekin með því vegna þess að við getum alltaf selt það aftur. En það vantar vissulega rekstrarfé vegna þess að Akureyrarbær hefur ekki komið inn í reksturinn og auðvitað er ekki hægt að búa við þá óvissu mjög lengi. En við fögnum í dag og vonum að þetta bjargist – eins og Íslendingar segja nú gjarnan.“

Starfsmaður göngudeildarinnar á Akureyri er Ásgrímur G. Jörundsson áfengis- og vímuefnaráðgjafi og hann sinnir einnig fólki á Húsavík og Sauðárkróki.

Þórarinn segir mikla þörf fyrir göngudeild á Akureyri. „Þörfin er gríðarlega mikil fyrir þessa starfsemi hér vegna þess að fólkið er langt frá spítalanum og okkar aðal-þjónustumiðstöðvum. Það er mikilvægt að fólkið þurfi ekki að fara suður og það fær mikinn stuðning hér eftir að það hefur verið í meðferð.“

Þá segir Þórarinn Tyrfingsson það skipta miklu máli að forvarnarstarfi sé sinnt, t.d. gagnvart börnum sjúklinga, vegna þess að þau séu áhættuhópur. „Við þurfum að þjónusta þetta fólk og ætlum okkur að gera það í framtíðinni svo fremi við fáum tækifæri til þess,“ sagði Þórarinn.