Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 80 milljörðum króna á árinu 2007 samanborið við 76,2 milljarða á árinu 2006. Aflaverðmæti hefur aukist um 3,9 milljarða eða 5,1% milli ára.

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 80 milljörðum króna á árinu 2007 samanborið við 76,2 milljarða á árinu 2006. Aflaverðmæti hefur aukist um 3,9 milljarða eða 5,1% milli ára. Aflaverðmæti í desember nam rúmum 5 milljörðum en var 5,6 milljarðar í desember 2006.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands. Aflaverðmæti botnfisks var 60,3 milljarðar árið 2007 og hefur því aukist um 4,8% frá fyrra ári þegar aflaverðmætið nam 57,5 milljörðum. Verðmæti þorskafla var 29,5 milljarðar og jókst um 6,8%. Aflaverðmæti ýsu nam 14,5 milljörðum, sem er 27% aukning frá 2006. Aflaverðmæti karfa dróst saman um 11,3% og var 5,8 milljarðar í árslok. Verðmæti ufsaaflinn var 4,2 milljarðar árið 2007 og dróst saman um 9,5% frá fyrra ári.

Verðmæti flatfiskafla nam 4,3 milljörðum árið 2007 og dróst saman um 17,1% frá árinu 2006. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 15,5% milli ára og nam 14,5 milljörðum. Munar þar mest um 94,8% aukningu á verðmæti loðnu sem nam 4,2 milljörðum í árslok 2007. Aflaverðmæti síldar nam 5,7 milljörðum á síðasta ári og dróst saman um 10,2% frá 2006. Verðmæti kolmunna dróst saman um 16,2% og nam 3 milljörðum árið 2007. Verðmæti rækju var 226 millj. kr. samanborið við 287 millj. kr. í fyrra, sem er samdráttur um 21,3%. Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu, var 32 milljörðum króna sem er aukning um 3,7 milljarða eða 13,1%. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 5,5%, var 12,7 milljarðar. Aflaverðmæti sjófrystingar var 24,9 milljarðar og dróst saman um 3,9% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 8,5 milljörðum sem er 6,8% aukning.

Af einstökum landsvæðum komu mest verðmæti að landi á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, eða um 14,5 milljarðar á hvorum stað. 7,7% samdráttur varð í aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu, en 9,6% aukning á Suðurnesjunum. Á Norðurlandi eystra varð aflaverðmætið 11,6 milljarðar króna og jókst það um 22,2%. Á Austurlandi varð aflaverðmætið 10,5 milljarðar króna og jókst um 9,3%. Á Suðurlandi var landað afla að andvirði 7,4 milljarðar króna og stendur aflaverðmætið nánast í stað milli ára. Á Vestfjörðum og Vesturlandi varð aflaverðmætið rétt rúmir 4 milljarðar króna á hvorum stað. Það er 35,2% aukning á Vesturlandi en 3,5% samdráttur á Vestfjörðum.